05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (1355)

87. mál, bættar samgöngur við Austfirði

Jón Auðunn Jónsson:

Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, af því að ég er ekki samþ. því, að d. skori á ríkisstj. að hlutast til um það við Eimskipafél. Ísl. að taka upp auknar ferðir til Austfjarða eftir að forstjóri Eimskipafél. Ísl. hefir lofað því, að skip fél. skuli koma við á Austfjörðum í útleið 3-4 sinnum frá sept. til des., auk þeirra áætlunarferða, sem þegar eru ákveðnar, svo framarlega sem þörf er fyrir auknar viðkomur skipanna. Ég tel því óþarft, að þessi ályktun komi frá þinginu, þar sem það líka er vitanlegt, að Eimskipafél. getur ekki gert, vegna sinna áætlana, annað en það, sem það þegar hefir lofað. Hv. frsm. sagði, að framkvæmdastjórn ríkisskipa áliti, að bæta mætti samgöngurnar eins og hér er farið fram á án aukins kostnaðar. (SvÓ: án þess að breyta áætlun). Áætlunin er ekki komin enn fyrir þennan tíma, júní-des. Hraðferðum til Austfjarða í júlí og ágúst álítur hann, að megi koma við án aukins kostnaðar. Frsm. gat um það, bæði í n. og eins við framsögu, að mest þörf væri á auknum samgöngum við Austfirði vegna síldveiða. En ég fæ ekki með nokkru móti skilið það, að auknar strandferðir geti bætt úr flutningaþörf á síld, eða að hægt sé að nota til muna við slíka flutninga áætlunarskip eða póstflutningaskip. Slík skip hljóta að verða allt of dýr til þess. Þessa flutninga má hafa miklu ódýrari með því að leigja til þeirra sérstök skip. Mér þykir það undarlegt og lýsa óvenjulegu framtaksleysi, þegar því er haldið fram, að ekki hafi nýtzt að síldveiðinni á Austfjörðum á síðasta hausti af því póstskipin hafi of fáar viðkomur þar. Nú er h. u. b. 1/3 af öllum heimsflotanum ónotaður og liggur í höfn, og mætti því vafalaust fá ódýr skip

á leigu til þessara flutninga, svo að segja fyrirvaralaust. Áætlunarskip Eimskips og ríkisskips geta aldrei fullnægt þörfinni á útflutningi síldar, og alls ekki útflutningi ísaðrar síldar.