05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (1356)

87. mál, bættar samgöngur við Austfirði

Björn Kristjánsson:

Ég er hv. flm. þessarar till. sammála um það, að auknar samgöngur við Austfirði eru mjög þýðingarmiklar fyrir Austfirðinga. Og það er eðlilegt, að þeir finni því sárar til þess, hve samgöngur við Austfirði eru slæmar nú, þar sem þeir hafa einu sinni haft betri samgöngur við útlönd heldur en aðrir landshlutar. Hinsvegar get ég skilið aðstöðu hæstv. stj., að hún geti ekki gert meira til að fullnægja óskum landsmanna en fjárveiting er fyrir, og ekki þarf að ætlast til þess, að hún geri nein kraftaverk.

Það, sem aðallega kom mér til að standa upp nú, var sú brtt. n., sem fer fram á, að Súðin verði látin fara 2 til 3 hringferðir í haust. Ég vil leggja sérstaklega mikla áherzlu á, að þetta verði gert, og undirstrika ég rækilega þessa till. Í Reykjavík er á hverju ári markaður fyrir allmikið af frosnu kjöti og öðrum sláturafurðum frá Austur- og Norðurlandi, en möguleikar til að nota þann markað eru algerlega háðir því skilyrði, að Súðin verði í förum þann tíma árs, sem þessar afurðir tilfallast, þar sem þær þurfa að vera í frystirúmi meðan ferðin varir, til þess að komast óskemmdar. Esju er ekki hægt að nota til slíkra flutninga, því hún hefir ekkert kælirúm, og Fossana heldur ekki, nema Brúarfoss, en hann hefir um það leyti árs öðrum flutningum að sinna.

Þörf Norðlendinga og Austfirðinga á því að geta notað sér þennan markað í Reykjavík er vitanlega mjög brýn, og þegar við eigum skip, sem hefir kælirúm og getur fullnægt okkar þörfum í þessu efni, finnst mér ófært að nota það ekki. Og ef stj. sér sér ekki fært vegna fjárskorts að bæta við þessum ferðum, sem farið er fram á í brtt., þá tel ég það ekkert áhorfsmál, að nota beri heldur Súðina en Esju til haustferðanna, enda má benda á það, auk þeirra ástæðna, sem ég þegar hefi tekið fram, að Súðin hefir miklu meira lestarúm en Esja og getur því miklu betur fullnægt hinni almennu flutningaþörf, sem mest mun vera um það leyti árs.

Mér er kunnugt um, að við Húnaflóa og í Þingeyjarsýslum og sjálfsagt miklu víðar er brýn þörf á þessum kæliskipaferðum, ekki aðeins vegna kjötflutninga, heldur og líka vegna annara flutninga, svo sem fyrir svið o. fl. Að ég stóð upp, var til þess að leggja sérstaka áherzlu á þetta. Vænti ég, að þáltill. verði samþ. með brtt. þeirri, sem fyrir liggur, og að stj. hafi það alvarlega hugfast að láta Súðina taka 2-3 ferðir af Esju, ef ekki er hægt að láta bæði skipin ganga samtímis.