09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (1379)

69. mál, sæsímasambandið

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég býst ekki við, að þetta mál verði neitt hitamál, þó að það sé í rauninni eins stórt og önnur, sem hér eru á ferðinni. Hér er verið að reyna að búa í haginn fyrir það, að hægt sé að koma á talsambandi milli Íslands og útlanda. Þetta mun vera eitt af framfaramálunum í framtíðinni, og þess vegna er vert að gefa því vel gaum. Eins og kunnugt er, var á árinu 1926 gerður samningur að nýju við Mikla norræna ritsímafélagið um, að það skyldi hafa á hendi einkaleyfi í næstu 8 ár að því er snertir fréttaflutning milli Íslands og útlanda. Þessum samningi mátti þó segja upp annaðhvert ár síðustu 4 árin, og samkv. þeirri heimild ákvað þingið á árinu 1930 að heimila stj. að segja upp samningnum frá 1. jan. 1932. Af þessu varð þó ekki, en nú við áramótin síðustu kom til athugunar, hvort segja ætti upp samningnum eða ekki. Það valt að áliti stj. mest á tveim atriðum, — fyrst og fremst á því, hvort ritsímafélagið vildi heimila þrátt fyrir einkarétt þess, að við mættum setja upp talsamband við útlönd, ef við vildum. Hitt var það, að við þurftum að óska þess að fá einhverjar meiri tekjur af sendingu símskeyta en verið hefir, vegna þess að gengið hjá okkur hefir lækkað eins og hjá svo mörgum öðrum á síðustu tímum, en félagið reiknar sínar tekjur allar í gullfrönkum.

Í tilefni af þessu var farið fram á það við Mikla norræna, að það mætti segja upp samningnum með 9 mánaða fyrirvara, í staðinn fyrir 12 mánaða, frá 1. jan. næstkomandi, en áður en uppsögnin færi fram mundi landssímastjóri fara til viðtals við félagið og reyna að fá framgengt þeim breyt., sem stj. óskaði eftir.

Við þessa för landssímastjórans vannst það, að Mikla norræna ritsímafélagið hefir gengið inn á það, að við megum setja upp talsamband við útlönd án þráðar á leyfistímanum, þegar við viljum, en jafnframt er svo ákveðið, og er það nýtt ákvæði, að samningurinn með þessum breyt. haldi áfram að gilda eftir 1. jan. 1935, þó þannig, að jafnan verði hægt að segja honum upp með 9 mánaða fyrirvara, í staðinn fyrir að hann var áður eitt ár.

Það er eiginlega ekki annað, sem farið er fram á í þessari till., en að Alþ. vilji samþ., að sú breyt. verði gerð á þessu leyfisbréfi, að samningurinn haldi áfram gildi sínu eftir 1. jan. 1935 þangað til honum verði sagt upp af annarhvors aðila hálfu frá 1. jan. einhvers árs.

Það stendur hér í þskj. gróflega meinleg prentvilla, neðst á bls. 3: „til den 1 ste Januar, dog tidligst til den 1. Jan. 1935“. Þetta kemur greinilega fram hér í grg., þar sem sagt er: „þar til annaðhvort ríkjanna eða félagið segir því upp með 9 mánaða fyrirvara til brottfalls 1. janúar á eftir, þó eigi fyrr en 1. janúar 1935“. Annað atriði, og það er mjög mikilvægt, er, að íslenzka ríkinu er veitt heimild til þess að koma á talsambandi við útlönd, án þess að það rekist á leyfisbréf félagsins, en svo, til að gefa því eitthvað á móti, er ákveðið, að samningurinn gildi áfram, nema annaðhvort við eða þeir segi honum upp með 9 mánaða fyrirvara.

Hinu atriðinu, sem ég nefndi viðvíkjandi breyt. á töxtunum, hefir ekki fengizt framgengt, nema að nokkru leyti, og það eftir krókaleiðum. Félagið var ófáanlegt til að hverfa frá því að reikna tekjur sínar eftir gullfrönkum, en til uppbótar kemur það, að gjaldið, sem við fáum fyrir að annast rekstur sæsímastöðvarinnar á Seyðisfirði, á að hækka um 3% af sæsímataxtatekjunum. Þá fáum við rúml. 30% af tekjunum fyrir að annast rekstur þessarar stöðvar. Það kostar okkur ekki svipað því eins mikið og við fáum inn fyrir það. Mætti þá verja mismuninum til þess að standast halla þann, sem ritsíminn hefir orðið fyrir vegna gengisfalls. Telur landssímastjóri, að þá megi komast af án þess að hækka skeytagjöld milli Íslands og útlanda. Held ég, að þótt málið sé nú ekki meira en þetta, þá sé samt rétt, að það sé skoðað í n. Legg ég því til, að því verði vísað til samgmn.

Ég vona, að hv. dm. taki eftir því, að stj. er hér ekki að fara fram á að mega setja upp þetta talsamband. En hún gengur út frá, að henni sé heimilt að útvega sér áætlun um, hvað slíkt samband muni kosta. 1931 fór fram rannsókn á þessu, en þó er líklegt, að fram verði að fara nýr undirbúningur í málinu, eða svo lítur landssímastjóri á. Hér er því ekki farið fram á aðra heimild en til rannsóknar, og mun hún ekki verða mjög kostnaðarsöm.