22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (1381)

69. mál, sæsímasambandið

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ég get að mestu leyti vísað til álits samgmn. á þskj. 202 um þetta mál. Þar er tekið fram það, sem máli skiptir um meðferð þessa samnings.

N. lítur svo á, að sú breyting, sem fengizt hefir í næstl. febrúarmánuði um samning milli íslenzku símastjórnarinnar annarsvegar og símastjórnarinnar dönsku og Mikla norræna ritsímafélagsins hinsvegar, sé talsverður ávinningur fyrir okkur, eftir því sem áður hafa samningar staðið til, og að breytingin frá samningnum 1926 sé okkur yfirleitt hagfelld. Það eru 2 meginatriði, sem koma til greina í þessum nýju samningum. Í fyrsta lagi, að skýlaus heimild er fengin fyrir Íslendinga til að koma á talsambandi við útlönd, og í öðru lagi er breyting, sem gengur oss í vil um skiptingu á tekjum af sæsímanum. Einnig má álíta það nokkurn ávinning, að breytt er til um uppsagnarskilyrði samningsins, þannig, að nú er uppsagnarfresturinn aðeins 9 mánuðir eftir þessum nýja samningi, en var áður heilt ár. Það gæti því farið svo, ef snemma þings væri tekin ákvörðun um að segja upp samningnum, að ekki þyrfti lengri frest en til næsta nýárs á eftir.

N. lítur svo á, að tillgr., sem felur í raun og veru ekki annað í sér en samþykkt samningsins, ætti einnig að fela í sér heimild fyrir ríkisstj. til að koma á talsambandi við útlönd, ef sérstaklega hagfelld boð fengjust um að mynda sambandið. Þetta hefir landssímastjóri, sem að samningum stóð, líka lagt mikla áherzlu á, að heimildin yrði fengin sem fyrst, og n. vill fyrir sitt leyti leggja til, að hún verði veitt með þessari till. Í því skyni flytur n. viðaukatill. við tillgr. með áliti sínu á þskj. 202. En það er ekki með því sagt, að til heimildarinnar verði tekið á þessu ári eða fyrir næsta þing, og líkurnar mestar til þess, að það verði ekki. Hinsvegar álítur n. rétt, ef stj. byðust hagfelld og góð boð um myndun sambandsins, að hún eigi að geta tekið þeim.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég þykist vita, að hv. þm. hafi kynnt sér grg. till. til hlítar, og ég vænti þess, að till. n. um þessa heimild fyrir ríkisstj. verði vel tekið.