22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (1387)

69. mál, sæsímasambandið

Forseti (JörB):

Ég ætla, að það sé ekkert því til fyrirstöðu, þótt ákveðin sé ein umr. upphaflega, sem gert var samkv. því efni, sem í till. var þegar hún kom fram, að hin síðari umr. megi fara fram um málið, þegar búið er að færa það í það horf, sem heimtar, að slík meðferð máls sé viðhöfð í þinginu. Sú breyt., sem gerð er á till., felur það í sér, ef samþ. verður, að tvær umr. þurfi að fara fram. Ég ætla, að brtt. hv. samgmn. geti því aðeins haft nokkurt gildi, að stjórnin megi framkvæma það, sem henni er þó vissulega falið að framkvæma. Og gildi fyrir ríkisstj. getur hún því aðeins haft, að það séu viðhafðar tvær umr. í hvorri deild. Upphaf till. eins og það er og var þegar hún kom fyrst, er ekki því til fyrirstöðu, að tvær umr. fari fram í deildinni. Vitaskuld hefir deildin í hendi sér, hvort hún gerir þessa breyt. á till. eða ekki. Þetta er ekki meiri breyt., sýnist mér, en oft gerist um meðferð ýmissa laga í þinginu. Ef því þessi breyt., sem samgmn. leggur til að verði gerð á till., verður samþ., þá mun ég skoða þessa umr. sem fyrri umr., og síðar fer fram síðari umr. um málið.