03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2883 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Jóhann Jósefsson:

Ég hafði mælzt til þess við hæstv. forseta, að mér leyfðist að gera fyrirspurn til stj. utan dagskrár, fyrirspurn, sem snertir utanríkismálin og er áhrærandi þá samninga, er á síðastl. hausti fóru fram milli Norðmanna og Íslendinga út af verzlunarviðskiptum. Það er langt síðan sá hluti samnings þessa, er snertir útflutning á íslenzku saltkjöti til Noregs, var birtur landslýðnum, en um hitt vaða allir í villu og svima og gera sér ýmsar hugmyndir um, hverju muni hafa verið lofað af Íslands hálfu. Það er að vonum, að þetta mál, sem snertir svo mjög hagsmuni landbúnaðar- og sjávarútvegs og einkum síldveiðarnar, sé þannig, að menn vilji gjarnan fá vitneskju um, hvað til stendur að gera af Íslands hálfu gagnvart fiskveiðalöggjöfinni. Ég hefi orðið þess var, vegna þess að ég á sæti í sjútvn., að utanþingsmenn ætlast til þess, að við, sem sæti eigum í n., vitum um þetta mál, og hafa mér því borizt fjöldamargar fyrirspurnir um samninginn. Sjútvn. hefir ekkert borizt frá ríkisstj. þessu máli viðvíkjandi, og þó er liðið nokkuð af þingtíma. Teldi ég mjög heppilegt að svipta þessari leynd af málinu, svo að þingið fengi vitneskju um, hvað í ráði er, og að menn þyrftu ekki lengur að fara eftir sögusögnum einum um það, hverju Norðmönnum hefir verið lofað. Ég vil því leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til ráðh. utanríkismálanna, hvenær þingið og sjútvn. mega vonast eftir að fá í hendur gögn þessa máls.