29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (1398)

69. mál, sæsímasambandið

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Eins og kunnugt er, var gerður samningur við Mikla norræna ritsímafélagið 1926, um sæsímasambandið milli Íslands og útlanda. Hann átti að gilda í 8 ár, eða til ársloka 1934. Þó mátti segja honum upp með eins árs fyrirvara.

Nú er það ákvæði í þessum samningi, að Íslendingar megi ekki setja upp neitt samband við útlönd, nema loftskeytasamband til afnota fyrir skip eða þegar sæsíminn er bilaður. En talsamband er ekki heimilt að setja upp. Nú hefir þessu þráðlausa talsambandi fleygt fram erlendis á undanförnum árum, og það hafa komið fram sterkar raddir um, að nauðsyn væri á því fyrir okkur Íslendinga að koma á þráðlausu talsambandi við útlönd. Til þess að gera þetta mögulegt var leitað eftir því við Mikla norræna, hvort það vildi ekki gera þá breyt. á samningnum, að við fengjum heimild til að setja upp þetta talsamband, og í þeim erindagerðum fór landssímastjóri til útlanda um síðustu áramót. Afleiðingin af því varð sú, að Mikla norræna lofaði þessu, þó með því skilyrði, að þráðsamband yrði ekki sett fyrir árslok 1934. Þetta var okkur alveg útlátalaust, því fyrst og fremst er það ekki kleift nú sökum kostnaðar að setja þráðlaust samband, og auk þess gæti það ekki orðið fyrir árslok 1934.

Félagið fékk það á móti, að samningurinn standi áfram eftir árslok 1934, svo framarlega sem honum er ekki sagt upp með 9 mánaða fyrirvara. En ef þetta hefði ekki fengizt, þá var heimilt að segja upp samningnum nú, til þess að hafa frjálsar hendur. Annað, sem hagfellt er í þessu fyrir okkur, er það, að borgun sú, sem ríkið fær fyrir að reka símastöðina á Seyðisfirði, er hækkuð. Þó var ekki farið fram á það; heldur það, að ekki væri reiknaður hluti Mikla norræna í gulli, eins og þó var ákveðið í samningnum. Þetta vildi félagið ekki gera vegna viðskipta sinna við önnur lönd, heldur skyldi það koma á móti kröfu Íslendinga, að meira væri borgað fyrir rekstur stöðvarinnar á Seyðisfirði.

Afleiðingin af þessu er sú, að líklegt er, ef gengið breytist ekki meira, að hægt sé að halda þeim töxtum, sem hafa verið síðastl. ár.

Þessi till. gengur út á það að fá samþ. þingsins fyrir þessum breytingum á leyfisbréfi Mikla norræna ritsímafélagsins. Af hálfu ríkisstj. var ekki farið fram á meira, en í hv. Nd. var því bætt við, að heimila ríkisstj. að koma á talsambandi við útlönd svo fljótt sem henni virtist það tiltækilegt. Ég tel, að stjórnin hefði haft rétt til að undirbúa málið án nokkurrar heimildar. En ég hafði búizt við, að málið yrði ekki komið lengra fyrir næsta þing, en að þá yrði í hæsta lagi lagt fram tilboð í þessu efni.

Landssímastjóri kvaðst ekki hafa rannsakað kostnaðinn til hlítar, en álítur, að hann muni ekki verða minni en 300-500 þús. kr. við að koma á talsambandi.

Auðvitað sér stjórnin enga ástæðu til að vera á móti því að fá þessa heimild, en ég vil taka það fram, að ég geri ekki ráð fyrir, að málinu verði komið lengra fyrir næsta þing en að fyrir liggi tilboð eða kostnaðaráætlun um það, og mér þykir líklegt, að þessi heimild, sem hér er nefnd í þáltill., verði ekki notuð án þess að vera borin undir þingið, og ég segi fyrir mig, að svo framarlega sem ég ætti að fara með þessi mál á næsta þingi, þá teldi ég tryggilegast að gera það.

Ég geri ráð fyrir, að hv. d. þyki það réttara, að þessi till. sé athuguð í n., og legg ég þess vegna til, að umr. verði frestað og málinu vísað til samgmn.