03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2884 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þegar samningaumleitunum milli Íslendinga og Norðmanna var lokið á síðastl. sumri, var það umtal milli fulltrúa beggja þjóðanna, að samningarnir yrðu birtir samtímis í báðum löndunum, þegar ákvörðun hefði verið tekin í þingum beggja landanna um staðfestingu samninganna. Við höfum einnig átt í samningum við Englendinga, sem ekki er lokið enn. Höfum við þó vonað, að þeir gætu orðið fullgerðir í lok febr.mán. Ég hefi óskað þess af sendiherra, að hann fengi upplýsingar um, hvenær vænta mætti, að til okkar yrði kallað til næsta samtals, sem vonandi verður einnig úrslitasamtal. Fullnaðarsvar hefi ég enn ekki fengið, en hið síðasta er símskeyti, er mér barst í gær. Segir þar, að sennilega verði ekki fyrr en í aprílmán. hægt að útkljá um samningana, sem nú standa yfir milli Englands og Norðurlandanna, en hinsvegar gert ráð fyrir því, að ekki sé um nema svo fá atriði að ræða við Ísland, að ekki þurfi að kalla til þeirra fyrr en langt er komið samningunum við hin Norðurlöndin. — Eftir að hafa fengið þetta skeyti er ég ráðinn í því að leggja norsku samningana fyrir þingið nú næstu daga. Samningurinn er tilbúinn og ekki annað, sem gera þarf, en láta prenta hann. Verður honum síðan útbýtt hér eftir helgina. Það samband, sem ég hefi sett milli þessara samninga, mun skýrast síðar. En úr því sem nú er komið verður að bera samninginn upp hér í þinginu áður en úrslitasamtal fer fram við Englendinga.