12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (1400)

69. mál, sæsímasambandið

Frsm. (Páll Hermannsson):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, var gerður af Íslands hálfu árið 1926 framhaldssamningur við Mikla norræna ritsímafélagið um símasamband milli Íslands og annara landa. Þessi samningur átti að gilda í 8 ár, eða til ársloka 1934. Á Alþ. 1930 var ríkisstj. gefin heimild til þess að segja upp þessum samningi. Þetta hefir ekki verið gert, en núna að undanförnu hefir að tilhlutun stj. verið leitað nýrra samninga við Stóra norræna félagið og hefir orðið samkomulag um nýja samninga, sem eru Íslandi nokkru hagkvæmari en þeir samningar, sem nú gilda. Það er aðallega á þrennan hátt, sem þetta nýja samningsuppkast er aðgengilegra fyrir Ísland en það, sem nú á sér stað. Í fyrsta lagi er eftir þessu nýja samningsuppkasti leyft að koma á talsambandi milli Íslands og annara landa, talsambandi, sem sennilega mundi vera loftleiðina, því að þráðsamband er víst margfalt dýrara, en talsamband er talið, að muni kosta 300-500 þús. kr. Í öðru lagi leggur Mikla norræna nokkru meira framlag til sæsímastöðvarinnar á Seyðisfirði en verið hefir, sem er ávinningur fyrir Ísland. Í þriðja lagi er styttri uppsagnarfrestur, ef samningnum verður sagt upp af annarhvors aðila hálfu, sem sé aðeins 9 mánuðir eftir uppkastinu, en hefir verið eins árs fyrirvari eftir samningnum frá 1926. Það er gengið út frá því, að samningurinn frá 1926 haldi áfram að gilda eftir árslok 1934 frá ári til árs, með þeim breyt., sem ég hefi nefnt. Annars eru á þskj. 93, í grg. við till. og í fylgiskjölum, sem þar fylgja, allgreinilegar upplýsingar um þessi atriði, sem ég býst við, að hv. þdm. hafi kynnt sér. Líka gat hæstv. dómsmrh. um ýms atriði, sem snerta þetta mál, þegar hann lagði till. fyrir hv. d., svo að ég held, að það sé ekki ástæða að fjölyrða um þetta hér í hv. d. Ég vil aðeins geta þess, að samgmn. leitaði upplýsinga hjá landssímastjóra, sem hefir verið við þessa samningagerð f. h. ríkisstj., og eftir þeim upplýsingum, sem hann hefir gefið getur n. ekki séð annað en að sjálfsagt sé að leggja til, að þáltill. verði samþ.