25.04.1933
Neðri deild: 57. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (1410)

165. mál, slysatryggingalög

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Það kemur greinilega í ljós við framkvæmd þessara laga í þessum atriðum, sem till. mín byggist á, að þegar lögin eru samþ. og reglugerð samin, þá er alls ekkert tillit tekið til þeirra manna, sem ráðnir eru upp á hlut eða part. Og það er heldur ekki tekið tillit til þess, að menn, sem vinna við fiskveiðar, eru ýmist í landi eða á sjó. Mér virtist gæta misskilnings hjá hv. 1. þm. N.-M. um það, hvaða áhrif þannig löguð ráðning hefði á slysatrygginguna.

Hann leit svo á, að úr því þeir væru útgerðarmenn, þá væri réttmætt, að þeir nytu ekki meiri greiðslu en nú er raun á. Taldi hann það réttmætt, að niður félli greiðsla á dagpeningum í 6 vikur, eða jafnlangan tíma eins og hjá þeim mönnum, sem ráðnir eru upp á kaup. Þannig ætti að útiloka þá, af því að þeir eru sjálfir útgerðarmenn. En mér virðist þetta algerð hugsunarvilla, því að ef ætti að útiloka þá sökum þessa frá stuðningi þennan tíma, þá lægi beint við að útiloka þá allan tímann, því að hvað væri meiri ástæða til þess að greiða þeim bætur eftir þennan tíma eða dánarpeninga, ef þeir eru útgerðarmenn sjálfir?

Þá kem ég að öðru atriðinu, sem hv. þm. hafði helzt út á að setja. Hann sagði, að sá hluti verkamanna, sem í landi ynni, gæti komizt undir aðra liði í slysatryggingalögunum. Þeir gætu komizt hjá því að láta skrá sig á skipin, en mér skildist á honum, að hann gæti dregið það út úr samtali við lögreglustjórann á Akranesi, að þeim þætti það ekki borga sig vegna þeirra réttinda, sem þeir fengju með því að láta skrásetja sig. Mér virðist engin ástæða til þess að hengja hatt sinn á þann snaga, því að það er í flestum tilfellum óhjákvæmilegt að skrá fleiri á bátana heldur en þar róa að staðaldri, og engin ástæða að útiloka þá menn frá dagpeningum. Ég tel líka alveg rétt, að þeir séu lögskráðir þegar frá byrjun, og það liggur í því, að ekki er leyfilegt að fara með þá á sjó, sem ekki eru skráðir minnst einni viku áður. En ef veikindi ganga eða mikið er að gera og þá kvillasamt, menn fá handarmein, eins og oft vill verða á vertíðinni, þá kemur það oft fyrir, að taka verður einhvern landmannanna og setja í skörðin á bátunum. Það væri því næstum ógerningur og mundi valda mikilli fyrirhöfn að þurfa að lögskrá mennina í hvert einasta skipti, sem þetta kemur fyrir. Auk þess fara þessir bátar oft í útilegur, þegar á líður, með allan mannskapinn, ef mikil fiskibrögð eru, og er þá gert að fiskinum úti. Og þó heldur hv. þm., að ekki sé þörf á því að lögskrá alla þá menn, sem fiskvinnuna stunda.

En hv. þm., sem er forstjóri slysatrygginganna og verður án efa spurður ráða í þessu efni, styður þá ósk mína, að þetta atriði verði tekið til athugunar að nýju, og vonast ég þá til, að fram komi við þá athugun, að nauðsynlegt verði að breyta til á þann hátt, sem ég hefi nú lýst.