25.04.1933
Neðri deild: 57. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (1411)

165. mál, slysatryggingalög

Halldór Stefánsson:

Eftir þessa ræðu hv. þm. get ég ekki síður fallizt á, að þessi atriði í slysatryggingalögunum verði tekin til athugunar. Ég get hinsvegar ekki fallizt á þann skilning, sem hv. flm. leggur í þetta mál. Hann telur skýringar mínar byggðar á hugsunarvillu, en ég get ekki fallizt á þau rök, sem hann færir fyrir því, að svo væri.

Hvað viðvíkur skráningu allra mannanna, sem að útgerðinni vinna, jafnt landmanna sem háseta, þá telur hv. þm., að slíkt sé alveg óhjákvæmilegt. En til þess að sýna, að hér er það hann, sem er á villigötum, þá nægir að benda á það, að þetta fyrirkomulag er ekki hið almenna, heldur er hér frekar um undantekning að ræða. Viðvíkjandi því atriði, að hér sé misskipt, eða hvort það sé réttmætt að gera mun á þeim, sem vinna í landi, en eru skráðir, og hinum, sem eru á skipunum, og að láta þá menn, sem vinna í landi, hafa styttri biðtíma og meiri réttindi en hina, þá held ég, að megi færa fullar ástæður fyrir því, að lögskráðir hásetar, sem vinna í landi, eru ekki verr settir með biðtíma sinn en hinir, sem á sjónum eru, eða jafnvel aðrir landverkamenn, heldur jafnvel betur. Ég vil þá byrja með því að spyrja: Eru þeir ekki ráðnir upp á samskonar hlut og sjómennirnir? (JAJ: Jú, sama hlut). Já, það hélt ég. Ætli starf sjómannsins sé nú ekki öllu meira hættustarf heldur en starf landverkamannsins? Og ætli það sé réttlátt, að sá, sem í landi vinnur og nýtur sömu kjara hjá útgerðinni og hinn, sem á sjóinn fer, hafi fyllri réttindi til slysabóta heldur en sjómaðurinn? Ég held, að fyrir því sé ekki hægt að færa nokkur rök, miklu fremur hið gagnstæða. Og ef þetta er einskonar félagsútgerð og skoða má alla, sem að henni vinna, sem atvinnurekendur að nokkru leyti, þá á eitt og hið sama við um þá menn, sem vinna að henni á sjó og á landi.

Ég álít, að vegna þessa mjög svo mismunandi skilnings á þessu atriði, sem kominn er í ljós, þá sé það því nauðsynlegra, að það sé tekið til athugunar.

Þá vil ég með örfáum orðum minnast á vatill. hv. þm. Ísaf., um læknishjálp, lyf og sjúkraumbúðir. Það er rétt, sem hann gat um, að það mun hafa verið á þinginu 1931, að ákveðið var, að slysatryggðir menn fengju greiddan kostnað við læknishjálp og lyf og umbúðir að 2/3 hlutum. Hv. þm. sagði, að það hefði tvímælalaust verið meining þingsins, að þetta ákvæði skyldi gilda fyrir allan tímann, frá því er slysið vildi til, en þyrfti ekki að sæta sama biðtíma og önnur réttindi manna til slysabóta.

Ég skal ekki draga í efa, að þetta kynni að hafa verið meining hv. flm. En hitt efa ég, að það hafi getað verið meining þingsins. Það er ekki eðlilegt, að rétturinn til bóta fyrir sjúkrakostnað sé meiri, þ. e. til annars eða lengri tíma, en rétturinn til dagpeninganna sjálfra. Það kostaði mikið fé og enn meiri fyrirhöfn, því þá þyrfti oft að greiða sjúkrakostnað, þó ekki kæmi til nokkurra bóta annara, og það yrði endalaust umstang.

Ég mæli ekki sérstaklega á móti því, ef þingið vill ákveða mönnum þennan rétt, sem hv. þm. Ísaf. fer fram á í vatill. sinni. En ég vil benda á það, að þá verða menn að vera við því búnir, að leggja þurfi þyngri gjöld á atvinnurekendur, því að breytingin mundi kosta allverulega aukning útgjalda, sem þeir eiga að greiða.

Ég vil geta þess til upplýsingar fyrir hv. þingmenn, að síðan 1931, er ákvæðin um sjúkrakostnað voru samþ., hefir iðntryggingin ekki borið sig. Útgjöldin hafa orðið meiri en tekjurnar. Það hefir verið reynt í lengstu lög að komast hjá því að auka iðgjaldakröfur á hendur atvinnurekendum að nokkrum mun, vegna yfirstandandi örðugleika í atvinnulífinu. Ég vil þó geta þess, að árið 1931 var gerð lítilsháttar breyt. á iðgjaldataxtanum, sem mun hafa verið heldur til hækkunar. Ýmsar iðngreinar voru færðar á milli flokka, eftir því sem ástæða þótti til, og mun það hafa stefnt heldur til iðgjaldahækkunar. En þrátt fyrir það hefir iðntryggingin ekki borið sig 3 síðustu árin. Ekki er hægt að segja, að enn sé fengin full reynsla fyrir því, hvort iðntryggingin kynni að geta borið sig til frambúðar. Það geta verið áraskipti að því, hve slys verða mikil, eins og bezt sjást dæmi um frá þessum vetri. Af þessum ástæðum og af hlífð við atvinnurekendur á þessum örðugu tímum hefir verið, eins og ég tók fram áðan, skirrzt við því í lengstu lög að hækka iðgjaldakröfurnar. En það er sýnilegt, að ef ákveðið verður síðar út af þessari brtt., að læknishjálp verði borguð frá upphafi og án tillits til biðtíma, eins og við aðrar slysabætur, þá verður ekki komizt hjá því að hækka iðgjöld að verulegum mun, sem mundi koma niður á atvinnurekendum. Þetta bið ég hv. þm. að athuga, ef þeir vilja fallast á þessa till. Það verður ekki gert nema jafnframt séu gerðar kröfur um hærri iðgjöld á hendur atvinnurekendum. Það er svo um þetta sem annað, að það verður ekki bæði haft og sparað. En út af fyrir sig munu allir geta fylgt því og óska þess, að slasaðir menn geti fengið sem hæstar bætur.