11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (1419)

190. mál, byggðarleyfi

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Eins og grg. till. ber með sér, þá er hún flutt eftir einróma áskorunum úr Ytri-Akraneshreppi í Borgarfjarðarsýslu. Á síðustu missirum hefir verið þangað svo mikið aðstreymi af fólki úr öðrum sveitarfélögum, að hreppsbúar telja, að það stefni í óvænt efni, eins og högum er þar háttað nú. Þar er ekki hægt að færa út kvíarnar eða auka atvinnureksturinn til sjávarins, nema hrundið verði í framkvæmd nauðsynlegum hafnarbótum. Það er höfuðskilyrðið fyrir því, að hægt verði að auka útgerðina. Með öðrum orðum: Á meðan ekki er hægt að bæta úr hafnleysinu, þá eru engin skilyrði fyrir auknum útvegi á þessum stað til að bæta úr atvinnuleysinu. En hinsvegar er aðstreymi fólksins svo mikið, að það horfir beinlínis til vandræða fyrir hreppsfélagið. — Á vertíðinni í vetur voru sæmileg aflabrögð á Akranesi, en þrátt fyrir það var talsvert atvinnuleysi þar, beinlínis vegna þess hvað margir aðkomumenn voru í sveitarfélaginu.

Auk þess er svo ákveðið í lögum, að nú þurfa menn ekki nema 2 ár til þess að vinna sér sveitfesti í sveitarfélagi, og kemur það mjög hart og ósanngjarnlega niður á slíkum stöðum sem þessum, vegna framfærsluréttarins, sem hinir aðkomnu einstaklingar hljóta í sveitarfélaginu, og margfaldar sveitarþyngslin þar. Af þessum ástæðum bera forráðamenn Ytri-Akraneshrepps fram þá ósk til Alþingis, að sett verði löggjöf, sem heimili viðkomandi sveitarstjórn að takmarka innflutning fólks í hvert hreppsfélag til fastrar dvalar, og einnig þeirra, sem koma þangað í atvinnuleit. Þessi heimild þarf að vera nokkuð víðtæk.

Ég skal benda á það, að frumvörp, sem fara í líka átt og hér er gert ráð fyrir, hafa nokkrum sinnum verið flutt áður á Alþingi. Á þinginu 1924 flutti hv. 1. þm. Eyf. frv. um byggðarleyfi og einnig á þinginu 1925. Á þinginu 1927 var samþ. þáltill. um að skora á stj. að undirbúa löggjöf um þetta efni, og sá undirbúningur var látinn fara fram, en frv. var ekki lagt fyrir þingið. Það liggja því fullkomin gögn fyrir til löggjafar um þetta efni, sem stj. getur unnið úr og væntanlega lagt frv. fyrir næsta þing.

Ég held, að hér sé um mikið alvöru- og nauðsynjamál að ræða, eins og nú standa sakir, og að það þurfi hreint og beint að gefa sveitarstjórnum í hreppum og kauptúnum og bæjarstjórnum í kaupstöðum, þar sem svo stendur á, að aðstreymi fólks veldur atvinnuleysi og sveitarþyngslum, fulla lagaheimild til þess að gera þær varnarráðstafanir gegn þessu, er tryggi sveitarfélögin fyrir óbærilegum álögum af þeim sökum. Vænti ég, að hv. þd. taki þessu máli vingjarnlega og að hæstv. stj. undirbúi löggjöf um þetta efni og leggi frv. um það fyrir næsta þing.