03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2885 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Norsku samningarnir voru gerðir að því tilskildu af hendi beggja aðila, að þeim yrði haldið leyndum þar til öðruvísi yrði ákveðið með samkomulagi milli stj. beggja ríkjanna. Eftir að samningamennirnir komu heim frá Noregi skýrðu þeir ríkisstj. íslenzku frá þessu. Tók stj. síðan þá ákvörðun að leggja samninginn fyrir utanríkismálanefnd, og þá að því tilskildu, að n. stæði við loforðin af hálfu Íslendinga um þagnarskyldu. Ég skal ekki að sinni víkja að því, hvað sérstaklega var þess valdandi, að báðar þjóðirnar óskuðu, að samningnum yrði haldið leyndum, en ég get sagt, að við Íslendingar höfum sérstaka ástæðu til þess að fara fram á það. Nú sé ég, að í opinberu blaði er í gær farið með ýmislegt rangt, en sumt rétt úr þessum samningum, og mun haft eftir einum þm. og utanríkismálan.manni. Hann hefir svikið sitt heit og gerzt hvatamaður þess, að Íslendingar sviki gefin loforð gagnvart annari þjóð. Ég mun leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvaða ráðstafanir hann ætli að gera til þess að afsaka þetta sviksamlega athæfi gagnvart Norðmönnum, og hvort heppilegt muni teljast, að þessi maður eigi áfram sæti í utanríkismálanefnd, maður, sem einungis til þess að koma fram pólitískum blekkingum vílar ekki fyrir sér að bregðast heitum, sem þjóð hans hefir gefið erlendu ríki í samningum, sem gerðir hafa verið, þótt þeir séu að vísu óstaðfestir. Sjálfsagt verður seinna tækifæri til að ræða innihald samninganna. Veit ég ekki til þess, að Alþfl. hafi nokkra ástæðu til þess að amast við samningunum eða þeir þm. hans, er hér sitja. En vegna þess, að ég tók þátt í þessari samningagerð, er mér áhugamál, að við verðum okkur ekki til skammar, Íslendingar, meira en nauðsyn er, en það er til skammar að gefa loforð, sem svo er svikið í þeirra heimalandi af trúnaðarmanni þjóðarinnar, eins og hv. 2. þm. Reykv. hefir gert.