19.04.1933
Efri deild: 51. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (1446)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Hæstv. dómsmrh. var ekki við, þegar ég talaði áður, en ég get staðfest þá tilgátu hans, að af n. hálfu er þessi till. meint eins og hæstv. ráðh. gerði ráð fyrir, sem heimild, en ekki skipun. Ég vil þó leggja áherzlu á það, að n. telur, að hér geti verið um brýna nauðsyn að ræða, og eftir því sem orð féllu hjá hæstv. ráðh., þá finnst mér ástæða til að ýta heldur á eftir fyrir hönd n. um það, að hæstv. stj. verði ekki allt of rög við framkvæmd þessa máls. Hitt staðfesti ég einnig fullkomlega, að n. telur, að stj. eigi að meta það við sjálfa sig, hvað hún telur fært áhættunnar vegna í þessu efni. En n. telur, að ekki komi til mála, að stj. taki á leigu stöðvar, sem ekki er nokkurn veginn tryggt, að séu í góðu standi og að til séu nauðsynlegir varahlutir í.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði í sambandi við norsku samningana, get ég lýst því yfir sem skoðun n., að eftir að þeir voru samþ., þá sé meiri nauðsyn til slíkra ráðstafana sem þessara en áður. Vegna þess að gera verður ráð fyrir, að markaður fyrir íslenzka saltsíld verði þrengri fyrir það, að Norðmenn fá þessa heimild til að selja síld í land, og þar við bætist það beinlínis, að gert er ráð fyrir, að norskar síldarbræðslustöðvar megi kaupa meira síldarmagn í bræðslu en þær máttu áður, eða 50% meira en áður var, þ. e. a. s., að áður höfðu þær leyfi til að kaupa 40% af notaþörf sinni af útlendum skipum, en nú 60%. Það liggur því í augum uppi, ef þessi heimild verður notuð, að það þrengir markaðinn fyrir íslenzka síld til bræðslu. Þess vegna er það augljóst, að þörf er á því að reka þær síldarbræðslustöðvar nú, sem ekki hafa verið starfræktar að undanförnu og eru rekstrarhæfar. Ég vil því leggja að stj. um það, að hún fari það, sem hún telur fært í þessu efni, en þó ber að gæta þess, að fyllsta varfærni sé við höfð að því er leigukjör og annað þessháttar snertir, og ég skal taka fram, að í þáltill. er átt við, að nógir varahlutir fylgi vélunum, svo að ekki stafi af eins mikil áhætta t. d. í sambandi við bilanir.