03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2886 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Héðinn Valdimarsson:

Það er ekki hætta á, að fram komi miklar „umkvartanir“ yfir birtingu samningsins, nema þær verði pantaðar héðan, því að það, sem ekki hefir fyrr verið birt, er allt hagsmunir Norðmanna. Og eigi þeir erfitt með að fá samningana staðfesta, þá er það frekar vegna kjöttollsins en þeirra fríðinda af Íslands hálfu, er haldið hefir verið leyndum þangað til í gær. Það er rangt, að samningarnir hafi verið gerðir að því tilskildu, að þeim væri haldið leyndum. Í samningunum er ekkert um það. Hitt er það, að eftir frásögn nefndarmanna hafa þeir lofað því að halda samningunum leyndum. En þetta er ekki gert vegna Íslands, heldur Norðmanna; a. m. k. er það þá einungis gert fyrir Ísland til þess að dylja, hve nefndarmennirnir hafa misnotað umboð sitt. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hvílir engin lagaleg þagnarskylda á utanríkismálan., og væri næsta undarlegt, ef slíkt væri nú tekið upp um þessa samninga. Auk þess segir það sig sjálft, að tveir fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins geta á engan hátt bundið afstöðu Alþýðuflokksins, enda hefir enginn búizt við því, að hann myndi taka tillit til þess, sem Ólafur Thors og Jón Árnason lofa fyrir hönd sinna flokka. — Á fundi utanríkismálan., þar sem talað var um þessi mál, gerði ég greinilega grein fyrir minni afstöðu og áleit, að samningarnir ættu að birtast og taldi mig á engan hátt bundinn við heit Ólafs Thors og Jóns Árnasonar, enda höfðu þeir ekkert umboð frá mér, heldur ríkisstj. — Hvort Norðmenn eru vinveittir Íslendingum fram yfir aðrar þjóðir, veit ég ekki, en það sýnist svo, sem hv. þm. G.-K. hafi mætt þar mikilli vináttu, og er ekki annað sýnna en hann hafi verið keyptur til að gera þennan samning, hvaða fríðindi sem hann hefir nú fengið að launum. — Þegar þessi mál koma hér til umr., mun það sýna sig, hverjir hafa orðið sér meir til skammar, þeir, sem gert hafa þetta samningsuppkast og haldið því leyndu, eða hinir, sem heimta það birt almenningi og fellt.

Hvað snertir ensku samningana, þá er auðvitað von, að Englendingar haldi, ef þessi samningur verður staðfestur, að þá geti þeir heimtað sömu yfirráð yfir þorskveiðunum og Norðmenn hafa fengið yfir síldveiðinni, samkv. beztu kjarasamningum sínum við Ísland. Ég er ánægður yfir því, að hæstv. forsrh. telur sig til neyddan að birta samningana í heilu lagi, og þá mun sýna sig, hvort það, sem eftir mér er haft í Alþýðublaðinu, er ekki í öllum aðalatriðum rétt.