08.05.1933
Efri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (1451)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Ég held, að það hafi ekki vakað fyrir nm. að leggja til að kaupa síldarbræðslustöð og leigja aðra, enda felst það ekki í till. Dugir því ekki að breyta fyrirsögninni til þess að fá þetta tvennt út úr till. Hún er svo ótvírætt orðuð, að ekki getur leikið efi á, að verði síldarbræðslustöð keypt þá er ekki tilætlunin að leigja aðra. Í tillgr. segir: „Alþingi heimilar ríkisstj. að kaupa síldarbræðslustöð dr. Pauls á Siglufirði, ef þess er kostur með hagkvæmum kjörum, eða að öðrum kosti að taka á leigu og starfrækja síldarbræðslustöð, sem ella mundi verða óstarfrækt, næsta síldveiðitímabil, á Siglufirði eða annarsstaðar“.

Þetta er svo skýrt orðalag, að ekki getur verið um það að deila, hvað meint er. Hitt er annað mál, hvort hv. þm. vill koma fram með þá breyt., að stj. verði heimilað að leigja aðra stöð, enda þótt ein verði keypt. En það vakti ekki fyrir sjútvn. Hún leit svo á, að ef stj. keypti eða leigði eina stöð, þá væri svo mikið bætt úr þörfinni, að það nægði, a. m. k. fyrst um sinn. Þar að auki veit n. ekki, hversu hentugar þær stöðvar eru, sem helzt væri hægt að fá leigðar. Henni er ekki kunnugt um nema tvær, sem fáanlegar myndu vera, en þær eru, eftir því sem bezt verður vitað, mestu gallagripir. Á ég þar ekki við síldarbræðslustöð þá, sem hv. 2. landsk. hefir að nokkru leyti yfirráð yfir. Hún er sæmileg, enda geri ég ráð fyrir, að hún muni verða rekin í sumar.

Samkv. því, sem ég nú hefi tekið fram, er það ekki meining sjútvn., að heimildin verði víðtækari en brtt. hennar á þskj. 563 tilgreinir.