13.05.1933
Neðri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (1462)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Frsm. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Sjútvn. hefir athugað þessa till. og orðið á eitt sátt að leggja til, að till. verði samþ., svo sem nál. á þskj. 666 ber með sér. Ástæðan til, að n. hefir tekið þannig á málinu, er sú, að það er öllum kunnugt, að vinnustöðvar þær á þessu sviði, sem starfræktar hafa verið hér á landi undanfarin ár, geta ekki fullnægt þörf útgerðarmanna og sjómanna til sölu á síld til bræðslu. Þessi stöð, sem hér er um að ræða, er eign Þjóðverja og hefir verið óstarfrækt nokkur undanfarin ár. Það er nú ósk sjútvn. eins og flm. þessarar till., og raunar hefir sá vilji einnig komið fram í Ed., því þar var till. samþ. ágreiningslaust, að gera tilraun til að fá þessa stöð leigða, eða jafnvel að ríkið keypti hana, eða að það yrði undir öllum kringumstæðum tryggt, að stöðin verði starfrækt.

Ég þykist mega gera ráð fyrir, eftir því sem atvinnuhorfur eru nú hér á landi, að á komandi sumri fari a. m. k. ekki færri skip til síldveiða heldur en í fyrra, nema horfur versni þá enn frá því, sem nú er. Nú er það upplýst, að Krossanesverksmiðjan hefir nú heimild til að kaupa 15-20 þús. málum meira en áður af erlendum skipum vegna norsku samninganna. Þess vegna álítur sjútvn., að Alþingi, sem hefir samþ. þessa norsku samninga og þar með að þessu leyti rýrt aðstöðu íslenzkra sjávarútvegsmanna og sjómanna, hafi skyldu til að bæta úr þessu. Þeir, sem vildu færa þessa fórn frá sjávarútveginum vegna þarfar þjóðarinnar á öðru sviði, koma nú til þeirra, sem voru þeim sammála að efla hag landbúnaðarins eins og gert var með norsku samningunum, og biðja þá um lið til þess að bæta úr þeim vandkvæðum, sem nú hafa færzt yfir á sjávarútveginn með samþykkt þessa samnings.

Ég vil því leyfa mér að vænta þess, að hv. d. geti orðið sammála um að samþ. þessa till. Um hitt, hvort heppilegra verði fyrir stj. að leigja stöðina eða kaupa, vil ég sem minnst tala hér í þessari d., og það er af því, sem allir menn hljóta að skilja, að það er engin ástæða fyrir okkur þm., sem erum talsmenn þess væntanlega kaupanda, ríkissjóðs, að halda hér hrókaræður, þó að við teljum hagkvæmara fyrir ríkissjóð að kaupa stöðina, enda mun stj. að sjálfsögðu láta fram fara þá rannsókn á þessu máli, sem þurfa þykir og nauðsynlegt er, áður en nokkur ákvörðun verður tekin.

Ég sé svo ekki ástæðu til að bæta fleiri orðum við álit sjútvn., enda vænti ég þess, að ekki þurfi að verða ágreiningur um að samþ. þessa till.