02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

66. mál, lögreglumenn

Jón Baldvinsson:

Ég vil aðeins benda á það, af því að deildin er nú fjölmennari en meðan ég flutti mína fyrri ræðu, að þessar brtt. eru í raun og veru framhald á þeim lagfæringum, sem hv. Nd. gerði á frv., og vænti ég því, að þeir hv. þdm. samþ. þær, sem vilja forðast þá ásteytingarsteina í lögunum, að menn séu neyddir til þess að ganga í lögregluna gegn vilja sínum. Það er augljóst, að ákvæðin um að gera skipshafnir varðskipanna að ríkislögreglu, eru stórhættuleg fyrir landhelgisgæzluna, þegar skipunum verður haldið inni vegna ímyndaðrar hættu í landi, og ég treysti því þess vegna, að þeir hv. þm., sem fastast halda fram landhelgisgæzlunni og eru fulltrúar þeirra héraða, sem mest eru útsett fyrir landhelgisbrotum, geri sitt til að kveða niður þessar skyldur á skipshöfnum varðskipanna. Þær hafa áreiðanlega nóg að starfa við gæzluna, þó að stj. geti ekki haldið þeim í landi undir röngu yfirskini til þess að forsóma landhelgisgæzluna.