23.05.1933
Neðri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (1497)

200. mál, tolleftirlit með póstsendingum

Flm. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er það ekki óverulegur hluti af innfluttum varningi, sem ekki gengur í gegnum tolleftirlitið hjá tollgæzlumönnum ríkisins, og mun það sérstaklega áberandi mikið hér í Reykjavík. Ég á hér við þær vörur, sem fluttar eru í pósti og ganga í gegnum pósthúsin, því að þar er ekkert sérstakt tolleftirlit. Að vísu er sendandi varanna skyldur til að gefa yfirlýsingu um, að það sé ekkert annað í sendingunni en það, sem stendur í faktúru; og ennfremur verður móttakandi varanna að gefa drengskaparyfirlýsingu um, að vörurnar séu hinar sömu og faktúran greinir. En um tolleftirlit með þessum sendingum er sama sem ekkert að ræða. Mér hefir verið sagt, að það væru að vísu gerðar prófanir á þessum póstsendingum, en að öðru leyti væru þær látnar afskiptalausar.

Nú er það ætlun mín með þessari þáltill., að komið verði á svipaðri tollskoðun á þessum vörusendingum í pósti eins og fram fer við tolleftirlit með öðrum innfluttum vörum. Hér er í raun og veru aðeins um að ræða framkvæmdaatriði fyrir stjórnina. Ég skal ekki fullyrða um, hvernig því væri bezt fyrir komið, en tel þó eðlilegast, að það verði á þann hátt, að löggiltur tolleftirlitsmaður starfi í pósthúsinu, eða að einhver póstþjónn verði löggiltur til tolleftirlits þar. Það skiptir litlu máli, hvor leiðin yrði farin. Vörusendingar í pósti fara langmest hér í gegnum pósthúsið í Rvík, og eru líkur til, að þetta eftirlit þurfi ekki víðar. Mætti svo hvetja lögreglustjóra og hreppstjóra til að hafa eftirlit með vörusendingum, sem koma í gegnum pósthúsin annarsstaðar á landinu. Ég skal nefna dæmi þess, að hér muni vera um allháar upphæðir að ræða. Árið 1932 fóru ca. 22 þús. vörubögglar og ca. 2 þús. verðbögglar í gegnum pósthúsið í Rvík. Af þeim var greiddur verðtollur ca. 132 þús. kr. og vörutollur ca. 19 þús. kr. En uppgefið verðmæti varanna 1932 var ca. 2800 þús. kr. og 1931 ca. 1400 þús. kr., eða um helmingi minna en fyrra árið. Þó að hér sé ekki um alveg nákvæmar tölur að ræða, þá gefa þær nokkra hugmynd um þennan mikla vöruinnflutning í pósti. Er mér ekki grunlaust um, að margir noti sér það að láta vörur fara gegnum póstinn, til þess að komast hjá tollgreiðslu. Er þetta mikill tekjumissir fyrir ríkissjóð, að menn komi sér þannig hjá lögmætum gjöldum, og eins er það skaðlegt, ef sumir geta komið sér hjá þessu, en aðrir ekki. — Mun ég svo ekki ræða þetta frekar. Er það mest á valdi hæstv. stj., hvernig þessu verður fyrir komið.