19.05.1933
Efri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (1503)

193. mál, fóðurrannsóknir

Frsm. (Jón Jónsson):

Nefndin hefir athugað þetta mál og leggur einróma til, að þáltill. verði samþ. En ég vil aðeins fara um hana nokkrum orðum til áréttingar því, er ég sagði við fyrri hluta umr., þegar málið var flutt. Hér er vitanlega um mikið nauðsynjamál að ræða og merkilegt starf fyrir landbúnaðinn, sem að mestu leyti styðst við búfjárrækt. Í öðrum löndum eru reknar rannsóknarstofnanir, sem gefa bændum fyrirsagnir og úrskurði um það, hvernig heppilegast og jafnframt ódýrast megi fóðra búfénaðinn. Hér á landi er nálega ekkert gert í þessu efni. Enda er það áreiðanlegt, að bændur hafa oft beðið stórtjón vegna þess, hvað fóðurefnin hafa verið ill og óheppileg, eins og t. d. árin 1926-27. Það er vitanlegt, að hið stórfellda tjón, sem bændur urðu þá fyrir á búfé sínu víðsvegar um land, hefir stafað af óhollu fóðri. Smávegis tilraunir hafa farið fram á Hvanneyri um fóðrun búpenings og rannsóknir á fóðurefnum, en tæplega á nægilega vísindalegum grundvelli til þess að skera úr í þessum atriðum. Og nú er rannsóknarstofnun ríkisins í uppsiglingu undir stjórn merkilegs vísindamanns í ýmsum greinum, sem vænta má, að taki þetta verkefni til meðferðar. Það er vitanlegt, að hér eru sérstakir landshættir og öðruvísi en í nágrannalöndunum. Þess vegna er það nauðsynlegt, að góður og vel fær maður sé látinn kynna sér nýjustu vísindi erlendis í þessum efnum og samræma þau við innlenda staðhætti. Ég skal geta þess, að það er nauðsynlegt að rannsaka fleira viðvíkjandi landbúnaðinum en innihald fóðurefna og blöndun þeirra, eins og t. d. ýmsa búfjársjúkdóma og orsakir þeirra, sem ég geri fastlega ráð fyrir, að verði teknir til athugunar og rannsóknar innan tíðar. Vona ég svo, að hv. þdm. taki þessari þáltill. vel.