03.06.1933
Neðri deild: 94. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

7. mál, gengisviðauka og tekju- og eignarskattsauka

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Hv. 3. þm. Reykv. myndi segja, að það sæist ekki á þessu þskj. 954, að samkomulag væri milli Sjálfstfl. og Framsfl. um afgreiðslu þessa máls, og ég skal ekki deila við hann um það. Honum er eins kunnugt og mér, að þetta samkomulag er fyrir hendi, og það mun sjást við atkvgr., þótt einstöku þm. verði leyft að víkja eitthvað frá því. En viðvíkjandi því, sem hæstv. dómsmrh. sagði um útgjöldin, sem hefðu verið samþ. í þinginu og ekki hefði verið aflað fjár til, þá vil ég enn lýsa yfir því, að við jafnaðarmenn hefðum verið fúsir til að styðja að því að afla nægilegra tekna fyrir ríkissjóð, ef tillit hefði verið tekið til þarfa verkamanna og sjómanna. En það hefir ekki verið gert á þessu þingi nema mjög lítið og ómerkilega, og yfirleitt hefir af hálfu stj. ekki verið reynt að semja við okkur um þau mál. En það er þá ennþá tækifæri til þess, því að hægt er að hafa þing nú í haust, þar eð menn búast við, að stjskr. nýja gangi í gegnum Ed., þar sem atkvgr. er búin, nema um frv. sjálft. Mun þá hægt að fá nægar tekjur í ríkissjóð fyrir næsta ár og ekki nauðsynlegt að samþ. þann skatt, sem hér liggur fyrir.