18.05.1933
Neðri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2894 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Héðinn Valdimarsson:

Ég þakka hæstv. forseta fyrir góð ráð hans, sem mér reyndar voru kunn áður. En ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta, hvort það muni ekki einsdæmi í þingsölunni, að ráðh. neiti að gefa slíkar upplýsingar, því eftir því sem mér er kunnugt um, þá hafa þm. getað gengið um í stjórnarráðsskrifstofunni og fengið þær upplýsingar, sem þá hefir vanhagað um, og skoðað fylgiskjöl. Það er því mjög nýstárlegt, ef þetta ráðuneyti, sem nú situr, ætlar að taka upp þann sið að dylja landsreikningana fyrir þinginu, nema meirihl.-ákvörðun þingsins fáist um það, að þm. skuli fá að sjá þá.

Ég vænti, að hv. þm. skiljist það, að ef haldið verður áfram á þeirri leið, muni verða seinlegt að fá upplýsingar í þingmálum.