03.06.1933
Neðri deild: 94. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

7. mál, gengisviðauka og tekju- og eignarskattsauka

Sveinbjörn Högnason [óyfirl.]:

Það er nýverið búið í Ed. að fella það frv., sem fór fram á það, að þau auknu útgjöld, sem af þessum tímum stafa, legðust á þá, sem mesta hafa til þess getuna, og hér er komið fram frv., sem að nokkru leyti tollar nauðsynjar fátæka fólksins í landinu, þar sem er kaffi- og sykurtollur, og ég get lýst yfir því fyrir mitt leyti, að þótt þetta sé kallað eðlilegt, þá mun ég aldrei samþ. að taka skatt á slíkan hátt. Ég mun hiklaust fylgja brtt. jafnaðarmanna í þessu efni, þó að þeir geti sjálfum sér um kennt, að svo er komið sem komið er, og frá þeirra hendi sé þetta kattarklór. Þeir hafa komið því til leiðar, að slíkt frv. þarf nú fram að bera hér í d. Hvað því viðvíkur, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að það yrði að sjá ríkinu fyrir auknum tekjum, þá hefi ég ekki samvizkubit af því. Ég studdi að því, að hér voru bornar fram lækkunartill. við fjárl., sem námu 100 þús. kr. og vann að því að undirbúa þær, og mjög margt af því var óþarfi. Hæstv. fjmrh. mælti eindregið gegn því, að þetta væri fellt niður af fjárl., og hann taldi yfirleitt kjark í menn um, að ekki væri svo dökkt útlitið, þótt þessar 100 þús. kr. yrðu ekki felldar niður. Ég hygg, að sú niðurfærsla myndi að nokkru vega salt móti því, sem nú á að fá með tollum á kaffi og sykri. Þar sem stj. taldi ekki nauðsyn á þessari 100 þús. kr. niðurfærslu, þá greiði ég ekki atkv. slíkum tollum.