18.05.1933
Neðri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er kannske réttast að upplýsa það, að það er oft, sem hv. 2. þm. Reykv. hefir beðið um þessar skýrslur. Hann vill fá að vita nöfn þessara manna, sem í ríkislögreglunni hafa verið, og hve mikið þeim hefir verið greitt. Ég hefi lofað því að gefa honum þessar upplýsingar, ef hann lofaði að ofsækja ekki þessa menn, eins og hann hefir gert. En hv. þm. hefir ekki viljað lofa þessu. Hann hefir fengið þær upplýsingar, sem hann varðar mestu, því hann hefir fengið að vita heildarupphæðina, og það verður að vera honum nóg, meðan hann vill ekki gefa nefnda yfirlýsingu.