04.03.1933
Efri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

60. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég þakka meiri hl. n. fyrir að hafa tekið frv. til flutnings. Bankanum er vitanlega nauðsynlegt nú eins og á síðasta ári að hafa rekstrarfé fyrir sjávarútveg og annan atvinnurekstur, sem er á hans vegum. Á síðasta ári hefir bankinn farið tryggilega með þessa heimild og einungis verið keyptir „liquid“ víxlar fyrir lánsféð. Þessum lánum hefir einungis verið varið til stuðnings þeim atvinnurekstri, sem hefir skilað starfsfé sínu aftur. Ég vænti þess, að hv. Alþingi treysti stjórn bankans til að halda uppteknum hætti og geti fallizt á að veita ríkisábyrgðina.

Ég skil fyrirvara hv. 2. þm. S.-M., en tel þó heppilegra að láta l. gilda framvegis þangað til þingið kippir að sér hendinni, því það er jafnopin leið til þess, ef óánægja skyldi vakna í þessu sambandi. Það er fyrirsjáanlegt, að bankinn þarf að hafa um nokkurra ára skeið slíka rekstrarlánsheimild, sem varla fæst nema með ábyrgð þingsins. Erlendir viðskiptabankar hafa síðari árin jafnan heimtað ríkisábyrgð fyrir rekstrarlánum til íslenzkra banka og atvinnuvega.