04.03.1933
Efri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (1543)

60. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Jónas Jónsson:

Þegar þessi heimild var samþ. fyrir nokkrum missirum, talaði ég á móti henni út frá þeim röksemdum, að ekki væri sýnilegt, að þessi banki mundi standa sig vel, þó sem betur fer hafi annað orðið upp á síðkastið. Ég álít, að það sé veruleg hætta á því að láta slíka heimild gilda til margra ára. Það er ekki af neinni tortryggni til þeirra manna, sem stjórna bankanum, heldur aðeins af nauðsynlegri varfærni, sem þarf að hafa við í þessu efni, því eins og áður hefir verið tekið fram, þá stafa lánin til þessa banka af því, hversu Íslandsbanki var illa staddur, þegar hann fór á höfuðið, og hvaða erfiðleika hann leiddi yfir þjóðina. Yfirleitt eru þær fjárupphæðir, sem hafa verið lánaðar í Englandi handa bankanum, bæði stofnfé og rekstrarfé, er fraus inni, í raun og veru fastar í bankanum en lausar í Englandi. Ég álít óhyggilegt að auka varanlegar skuldbindingar í þessu efni með þeirri reynslu, sem maður hefir fengið.