17.03.1933
Neðri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1560)

60. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hefi óskað þess, að ábyrgðarheimildin fyrir Útvegsbanka Íslands yrði tekin fyrir í dag á 2 fundum, vegna þess að bankastjóri Útvegsbankans, Helgi Guðmundsson, sem nú er erlendis, hefir þegar komið því svo fyrir, að bankinn getur á þessu ári fengið 100 þús. sterlingspunda rekstrarlán; en hann fer mjög bráðlega frá London og þarf helzt að fá símuð út lögin, áður en hann hverfur þaðan, til þess að koma málinu í fullt lag. Ég hefi átt tal við þann mann fjhn., sem hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og hefir orðið samkomulag um það, að hann setti sig ekki á móti því, að málið yrði tekið á dagskrá, ef hann gæti komið að skrifl. brtt.