17.03.1933
Neðri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1563)

60. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég þakka hv. n. meðferð hennar á málinu og undanskil þar ekki hv. þm. V.-Húnv., því að munurinn er minni á honum og hinum nm. en hann vill gera. Hafi hann núna sömu afstöðu og hann hafði í fyrra, veit ég, að hann hefir líka óbreytta afstöðu á næsta þingi, og svo koll af kolli, og verði þetta lagt saman, verður útkoman nákvæmlega þetta frv., sem hér liggur fyrir. Hér er enginn meginmunur á.

Ástæðan til þess, að óskað er eftir, að þingið samþ. ekki í hvert sinn þessa ábyrgðarheimild, heldur sé hún veitt til lengri tíma, þangað til kynni að koma upp óánægja, sem ylli því, að þingið kallaði aftur heimildina, því að sú leið er opin hvenær sem er —, ástæðan er eingöngu sú, að bankinn þarf að grípa svo snemma á árinu til þessarar ábyrgðarheimildar, að honum er það til mikilla óþæginda að þurfa á ári hverju að bíða fram í marzmánuð eftir heimildinni.