17.03.1933
Neðri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1566)

60. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Hannes Jónsson:

Ég þarf ekki að fjölyrða um þetta, en ég vísa til þess, sem menn gerðu og sögðu hér á þinginu í fyrra. Ég býst við, að þó að hv. frsm. og hæstv. ráðh. séu búnir að gleyma einhverju af því, þá rifjist það upp fyrir þeim, að till., sem þá var samþ. og ég nú fer fram á að verði samþ., var gerð sem öryggisráðstöfun, til þess að tryggja það, að þingið fylgdist vel með því, hvernig þessi ábyrgðarheimild væri notuð. Mér er ekki kunnugt um, hvernig með þessa lánsheimild hefir verið farið á síðastl. ári. Ég veit ekki til þess, að neinar upplýsingar um það hafi legið fyrir n. Hygg ég, að ennþá sé eftir að greiða það lán, sem tekið var með ríkisábyrgð í fyrra í þessu augnamiði. Ég kynni illa við það, ef taka þyrfti nýtt lán með ríkisábyrgð, án þess að greitt hefði verið lán það, sem tekið hefði verið á fyrra ári. Ég hygg, að það væri ekki í samræmi við skoðanir hv. þm. á þinginu í fyrra. Það væri fróðlegt að heyra um það, hve mikið stæði eftir ógreitt af því láni, sem kynni að hafa verið tekið í fyrra með ríkisábyrgð í þessum tilgangi.

Ákvæðið um það, að veita bankanum ábyrgðarheimildina aðeins til eins ár, ætti að vera bankanum fullnægjandi, en ég held samt, að það sé ástæða fyrir þingið að fá skýra grein fyrir því, hvernig þessi ábyrgð er notuð, að hve miklu leyti þau lán, sem tekin hafa verið með ríkisábyrgð, hafi verið greidd, þegar næst er leitað eftir ábyrgð á lánum.