17.03.1933
Neðri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

60. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Við 2. umr. þessa máls gaf ég þær upplýsingar, sem skipta máli um þessa fyrirspurn hv. þm., en það er það, hvort nokkuð hafi orðið „fast“ af þessu fé, hve mikið standi eftir núna og hvort til sé valuta fyrir því. Ég skýrði allt og með þeim hætti, að það mun heldur hafa vakið traust hv. þd. en vantraust. Ef nokkuð hefir vantað í mínu svari, kynni það að hafa verið það, hve mikil fjárhæð hafi verið notuð, þegar mest var notað af þessari heimild.

Ég vil óska þess, að hv. 1. þm. Rang., sem er kunnugastur í þeim efnum, svari, svo að allir geti orðið ánægðir, en f. h. stj. læt ég þess getið, að bankanum var heimilt að nota allt lánsféð, 100 þús. sterlingspund, ef hann þyrfti á að halda.