17.03.1933
Neðri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (1572)

60. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Jón Ólafsson:

Hæstv. forsrh. mæltist til þess, að ég segði nokkur orð út af fyrirspurn hv. þm. V.-Húnv. Ég skal gefa þær upplýsingar, sem raunar hv. 1. þm N.-M. hefir gefið, að bankinn hefir notað af þessu fé 50000 sterlingspund. Það var ekki af því, að í rauninni hafi ekki verið þörf fyrir meira, hefði heimildin komið fyrr á árinu, og einmitt þess vegna er nú farið fram á sömu fjárhæð, að það er þegar byrjað að lána út á fisk. Það kom í ljós á síðastl. ári, að það, sem var notað, var of lítið, hefði verið byrjað að lána út á fisk strax á árinu.

Ég er ekki viss um, að menn viti, hvernig fyrirkomulagið á þessum lánveitingum er. Því er svo háttað, að þegar lánað er út á fisk, þá er sá víxill, sem tekinn er með því veði, lagður í sérstakan kassa. Sá kassi, sem fiskverðið er lagt i, tilheyrir þeim banka, sem lánar peningana, þannig, að þeirra eftirlitsmaður gengst eftir því á hverjum mánuði, að þeir víxlar stemmi, sem lánað hefir verið út á og þessi stofnun hefir að veði. Þannig er frá þessu gengið, svo að það er tæplega hægt að ganga tryggilegar frá lánveitingum, og það sýnir sig, að þessar lánveitingar og veð hafa ekki að neinu leyti rekið sig á fyrir bankann. Þetta er út af fyrir sig ekki algerlega tryggt, ef óvönduglega er með veðsetninguna farið, en það er fágætt, og menn vita, hvaða afleiðingar það hefir.

Ég álít þessi lán og þessar ábyrgðir ríkissjóðs þær tryggustu, sem hægt er að hugsa sér, þar sem þessi lán á að greiða á sama ári með þessu „liquid“veði.