27.03.1933
Efri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

55. mál, lán úr Bjargráðasjóði

Frsm. (Jón Jónsson):

Þetta frv. er nú búið að ganga gegnum Nd. og hefir fengið þar góðan gang og hlotið samþykki.

N. sá ekki ástæðu til að amast við, að þetta yrði að 1., því nokkuð svipuð ákvæði eru þegar til í l. frá 1925, þar sem gert er ráð fyrir, að fóðurbirgðafélögum sé lánað til að afstýra hallæri. Það getur verið í einstökum tilfellum betra, að sýslufélögin sjálf taki þessi lán. Það er kunnugt, að í ýmsum héruðum, einkum norðanlands, er oft mikil hætta á, að samgöngur teppist vegna hafíss, og er því ekki nema vel til fundið, að sýslufélögin beiti sér fyrir því að afstýra vandræðum, sem af því getur leitt. N. sá því ekki ástæðu til að leggjast á móti þessu. En vitanlega er það annað mál, að það getur verið töluvert athugavert mál fyrir sýslurnar, hvort þær eigi að leggja út í þetta eða ekki, því ef ekki hafa farið fram, áður en svona ákvarðanir eru gerðar um tryggingu forða, nákvæmar rannsóknir um það, hverjar ástæður eru fyrir hendi í héruðunum, þá mun forðinn þurfa að vera nokkuð mikill. En n. lítur svo á, að þetta sé verksvið sýslunefnda, að tryggja þau sjálf gagnvart þessu, en hún sá ekki, að frá landsins eða sjóðsins sjónarmiði væri ástæða til þess að leggjast á móti þessu.