27.03.1933
Efri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (1601)

55. mál, lán úr Bjargráðasjóði

Einar Árnason:

Mér fannst á ræðu hv. frsm. landbn., að það væri nokkuð takmörkuð sú trú, sem n. hefði á gagnsemi þessa frv. Og ég verð í rauninni að láta í ljós sömu skoðun um það, að ég tel, að það sé dálítið vafasamt, að þetta frv., þó að l. verði, geti orðið að því gagni, sem til er ætlazt. Þó vil ég ekki beinlínis setja mig á móti því, að þessi heimild verði veitt, sem hér er farið fram á. En mín spá er sú, að þegar sýslufélögin hugsa sér að framkvæma þessa hugmynd, þá reki þau sig á ýmsa agnúa í framkvæmd þessa máls, sem sennilega hefir ekki verið hugsað fyrir, þegar upphaflega var stungið upp á að koma þessu á. Það er eins og hv. 2. landsk. tók fram, að þetta getur valdið sýslufélögunum nokkrum fjárútlátum, sem stafa bæði af verðbreyt. og öðrum kostnaði. En nú fer þetta vitanlega mikið eftir því, hvað víðtækar þessar ráðstafanir verða, hversu miklar þær birgðir væru, sem sýslufélögin tækju upp á sig að liggja með. Ég vil aðeins taka það fram, að ef veruleg harðindi ber að höndum, þá er það ekki nema lítil björg, þó þau forðabúr verði, sem nægja mannfólkinu um kornvörur. Það, sem mest hætta stafar af, er fóðurskortur fyrir fénaðinn. Til þess að bjarga fénaði frá fóðurskorti í langvarandi harðindum, þarf geysilega miklar birgðir, þegar hey eru þrotin. Ef fyrir þessu ætti að hugsa, þá þurfa birgðirnar að vera svo miklar, að það eru litlar líkur eða engar til, að þá væri hægt að koma birgðunum í lóg í öllu venjulegu árferði á sama ári. Ég er viss um, að sýslufélögin verða að taka það til rækilegrar athugunar, að þau þurfa að hafa handbæran ríflegan varasjóð, til þess að taka af þau skakkaföll, sem hljóta óhjákvæmilega að koma fram, ef í þetta er ráðizt. En sem sagt, ég geri ráð fyrir, að sýslunefndir athugi málið áður en þær leggja út í það, og þess vegna sé e. t. v. ekki rétt að neita þeim um þessa heimild, sem hér er farið fram á. Þar sem hv. 2. landsk. minntist á það, að eðlilegasta leiðin væri, að sýslufélögin tækju einkasölu á kornvörum, því þá væri útilokuð fjárhagslega áhættan af þessu, þá er í rauninni nokkuð til í þessu. En þá verður að gæta þess, að þá eru mjög litlar líkur til, að þeir, sem kornvöruna kaupa, njóti þess verðfalls, sem kynni að verða á þessari vöru kannske á einu ári. Þá er búið að setja þessa verzlun innan þess hrings, sem kaupendur verða að sætta sig við, að verðlagið sé það, sem sýslunefndir telja sig skaðlausar af að setja á kornvöruna.

Ég vil aðeins láta í ljós þessa skoðun mína, að þetta mál er talsvert vandasamt, og vandasamara en ýmsir hafa álitið, sem eftir fyrstu umhugsun hafa hallazt að þeirri skoðun, að þetta væri gott ráð. Ég fyrir mitt leyti er þó alls ekki að gera lítið úr þessu ráði og mun þess vegna ekki reyna að bregða fæti fyrir frv., þó að ég hinsvegar hafi ekki mikla trú á, að það geri verulegt gagn, þó að það verði að l.