27.03.1933
Efri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

55. mál, lán úr Bjargráðasjóði

Jón Baldvinsson:

Ég var ekki að mæla á móti frv. áðan, heldur aðeins að benda á þá agnúa, sem mér sýndust vera á þessu fyrirkomulagi. Ég mun ekki greiða atkv. á móti frv., þó að ég hafi ýmislegt við það að athuga, heldur vil ég aðeins benda á þá galla, sem á þessu eru.

Það verður ekki annað sagt en að þetta sé áhættumikið fyrir sýslufélögin, og getur jafnvel verið um stórar fjárhæðir að ræða. Það mun ekki um of í lagt, þó að gert sé ráð fyrir, að eitthvert sérstakt hérað taki í þessu skyni 50 tonn af kornvöru. Kostnaður vegna geymslu á svo miklum birgðum hlýtur að verða talsvert mikill auk vaxta og annars kostnaðar, sem alltaf hlýtur að verða tilfinnanlegur, og svo er engin von til að geta selt þetta korn dýrara en kaupmenn og kaupfélög selja það á hverjum tíma. Og það er ekki einu sinni víst, að hægt sé að selja það svo háu verði, því að kornið þarf góða geymslu, ef það á ekki að skemmast. Auk þess þarf að hreyfa kornpoka a. m. k. einu sinni í mánuði, svo að kornið skemmist ekki, og við það er talsverður kostnaður. Ég er því að henda á það sem heppilegri leið, sem hv. þm. Ak. vildi fara, því að þá mundi kaupfélögunum falið að hafa þessar birgðir, og eftir því sem hv. frsm. talaði, þá mun það vera meiningin, og þá er þetta frv. í raun og veru heimild til að veita kaupfélögunum rekstrarlán, sem sýslufélögin taki úr Bjargráðasjóði, og auk þess verða sýslufélögin að taka á sig áhættu, sem stafar af verðlækkun, auk talsverðs kostnaðar.