27.03.1933
Efri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1603)

55. mál, lán úr Bjargráðasjóði

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég vil aðeins geta þess út af því, sem hv. 2. landsk. sagði, að ég get ekki séð, að þetta hefði tilfinnanlegan kostnað í för með sér, nema þá kannske í einstöku tilfellum. Þó að taka þyrfti til geymslu 50 tonn í 5 mán., og ég hygg, að í fæstum tilfellum væri um lengri tíma að ræða, þá hygg ég, að kostnaðurinn yrði varla meiri en svo sem 200 kr. eða eitthvað þess háttar. (JBald: 2000 kr.), og það er ekki svo tilfinnanlegt, þegar tryggja á heilt sýslufélag gegn hallæri. En ef á að tryggja allan fénað manna gegn fóðurskorti, eins og hv. 2. þm. Eyf. var að tala um, þá hygg ég, að bezta aðferðin yrði, að héraðsbúum væri tryggður nægilegur heyforði, sem verður nú alltaf auðveldara og auðveldara, eftir því sem ræktunin vex, og það yrði auðvitað verk fóðurbirgðafélaganna. Hitt væri ómögulegt, að tryggja fénað gegn fóðurskorti með kornvörukaupum, nema áður færi fram athugun á því í hverri sveit, hve mikið þyrfti að fá, ef harðæri kæmi.

Ég tel því að öllu athuguðu, að sýslufélögunum sé í lófa lagið að fara svo með þessi mál, að áhættan verði ekki mikil.