11.03.1933
Neðri deild: 22. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

89. mál, silfurberg

Flm. (Þorleifur Jónsson):

Ég get að mestu vísað til grg. frv. á þskj. 128, en vil þó leyfa mér að fara fáeinum orðum um málið til framhalds því, sem þar stendur. Ég minnist þess, að fyrir mörgum áratugum þótti dýrmæt eign þar sem var Helgustaðanáman við Reyðarfjörð, vegna þess að þá var talið vist, að slík náma væri hvergi í heiminum nema á Íslandi. Og það hefir verið svo, að ríkari námur hafa ekki fundizt, nema e. t. v. nú á síðari árum í Rússlandi og Afríku. Fram til 1920 voru stórir, ógallaðir kristallar í mjög háu verði. — Ríkissjóður mun oftast hafa leigt námuna gegn ákveðinni leigu, en eftir því sem sjá má af LR. frá fyrri árum, þá hefir verið ærið misbrestasamt, hvað hafzt hefir upp úr námunni, því að sum árin hefir engin leiga verið greidd, en önnur þó nokkuð, frá 1—2 þús. kr. og einstöku ár töluvert meira. Árið 1922 rak ríkið sjálft námuna. Verkfræðingur var fenginn til þess að hafa á hendi stjórn verksins. Var þá tekið 70—80 þús. kr. lán til þess að grafa göng, því að þeir, sem síðast höfðu námuna, Frakkar munu hafa skilið svo illa við hana, að ekki hefir þótt fært að halda áfram rekstrinum á sama stað. Þegar svona var komið, var ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að ríkið tryggði sér um leið, að aðrir, sem kynnu að hafa silfurberg með höndum, hefðu ekki tækifæri til að keppa við ríkissjóð og geta fellt það í verði. Verkfræðingurinn flokkaði silfurbergið, og þá voru sett 1. um það, að ríkið eitt skyldi hafa sölu silfurbergs með höndum. Þrátt fyrir það fjármagn, sem lagt var í námuna eftir 1922, þótti ekki svara kostnaði að vinna hana. Náman var ekki eins auðug og búizt var við og það hittist ekki nein æð af silfurbergsskápum, eins og það er kallað. Eftir 5 ár var svo hætt við námuna, og seinasta árið, sem fé virðist hafa verið veitt til hennar, er 1927. Ég vil geta þess til glöggvunar, að skv. LR. eru tekjur þessar taldar 1923 10 þús. kr., 1924, '25 og '26 ekki neinar tekjur. 1927 eru tekjurnar 2600 kr. Gjöldin sömu ár voru: 1923 5600 kr., 1924 5320 kr., 1925 3575 kr., 1926 2000 kr., 1927 2000 kr., en hvort náman hefir sjálf getað greitt afborganir og vexti af fé því, sem í hana var lagt, hefi ég ekki getað séð af LR. En árið 1928, þegar hætt var námurekstrinum, þá eru eftirstöðvar lánsins taldar 21 þús. kr., en sem sagt, mér er ekki kunnugt, hvort náman hefir sjálf greitt afborganir og vexti af þessu fé. Árin 1928 og 1929 mun hafa verið selt hið síðasta af silfurbergi fyrir 10 þús. kr. bæði árin. En hvað sem þessu líður, þá hefir orðið tap á rekstrinum, og væri það þó sök sér, ef þarna væru auðæfi eftir, en ég hefi ekki heyrt taldar líkur til þess, að þarna væri um nokkurt silfurberg að ræða, a. m. k. ekki frá þeim gangi, sem grafinn var 1923. Síðustu árin hefir Guðmundur Hlíðdal landssímastjóri haft með höndum sölu á því silfurbergi, sem til var þegar námurekstrinum var hætt. Ég óskaði hjá honum upplýsinga um það, hvað óselt er af silfurbergsbirgðum ríkisins, og hann skrifaði mér 3. þ. m. á þessa leið:

„Af silfurbergi ríkisins er óselt aðeins nokkuð af lélegustu flokkunum, sem eru lítt hæfir til að nota í „optisk“ verkfæri. Það, sem eftir er, er þetta:

B3 ca. 45 kg.

B4 ca. 50 kg.

B5 ca. 90 kg.

C2 ca. 101 kg.

C3 ca. 70 kg.

C4 ca. 70 kg.

C5 ca. 90 kg.

Verðmæti þessara leifa nema sennilega ekki nema fáum þúsundum króna“.

Samkv. þessu er sama sem ekkert eða eiginlega ekkert óselt af silfurbergi, sem hægt er að selja út af fyrir sig. Þessar leifar, sem eftir eru, eru lítt seljanlegar, nema ef betra silfurberg er með. Þetta er nokkurskonar úrgangur.

Þannig standa þá sakir, að silfurbergsnáma ríkisins virðist vera tæmd og sama sem ekkert óselt af silfurbergi. Ráðstafanir frá 1922, nefnilega lögin um einkarétt ríkisins á silfurbergi, eru enn í gildi, en það, sem vantar, það er silfurbergið. Að vísu skal játað, að vottur er af silfurbergi í Hoffellsnámu í Skaftafellssýslu. Og ég skal geta þess, að samkv. bréfi frá Guðmundi á Hoffelli í vetur, eiganda námunnar, segir svo:

„Ég fann silfurbergið í Hoffellsfjöllum árið 1910. Árin næstu, til 1915, unnum við Björn Kristjánsson þar dálítið að silfurbergsnámi. Árið 1920 fékk Þórarinn Tulinius námuna á leigu, en síðan 1922 hefir lítið sem ekkert verið unnið í námunni. Bar Tulinius því við, að hann vildi ekki leggja fé í námuna, nema hann væri frjáls með silfurbergið. Nú er námurétturinn aftur fallinn til mín, og býst ég ekki við, eftir undanfarinni reynslu, að neinn vilji leggja fé í námuna nema hún sé alveg frjáls, m. ö. o. einkasölulögin afnumin. Hinsvegar er ég fús til að leigja eða selja ríkissjóði námuréttinn, ef Alþingi álítur það heppilegri leið en að afnema lögin“.

Það er því að nokkru leyti samkv. ósk námueigandans á Hoffelli, að ég flyt þetta frv. um afnám l. Samkv. því, sem ég hefi sagt, get ég ekki álitið, að ríkinu sé akkur í því, þótt þessi lög standi áfram.

Ég skal geta þess, að þau árin, sem unnið var í Hoffellsnámunni, fannst töluvert af allgóðu silfurbergi. Og maður getur gert sér von um, að það kunni að vera eitthvað enn til í fjöllunum af þolanlegu silfurbergi.

Ég hefi þá lagt þetta mál fyrir hv. þd. og vænti þess, að hv. þdm. sýni þá góðvild að lofa því til 2. umr. og til fjhn., hvernig sem þeir annars kunna að líta á málið.