29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2898 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég verð að segja, að mér kom það allókunnuglega fyrir, að hv. 2. þm. Reykv. gerir fyrirspurn til mín um gerðir Þingvallahátíðarnefndar endur fyrir löngu. Ég var ekki í þeirri n. og er því ókunnugur hennar gerðum. Mér finnst því, að réttara hefði verið af hv. þm. að beina fyrirspurn sinni til þessarar n. heldur en til stj. Auk þess áttu hv. jafnaðarmenn fulltrúa í Þingvallanefndinni, og getur hv. þm. spurt hann, ef hann vill, en ekki mig, þar sem ég var ekki í n. Mér er kunnugt um það, sem hæstv. forsrh. upplýsti í málinu, og hefi ég engu við það að bæta, en um hitt, sem hv. þm. spurði mig að á laugardaginn var, hvort ég hefði gefið Gísla Sigurbjörnssyni 10 þús. kr. — (HV: Spurði ég um það?). Já, var það ekki það, sem hv. þm. spurði um á laugardaginn? (HV: Ég spurði, hvort vanrækt hefði verið að innheimta hjá Gísla Sigurbjörnssyni, og ég vænti, að ráðh. fari rétt með). Voru það ekki þessar 10 þús. kr., sem hv. þm. var að tala um? Eftir að ég varð ráðh. gerði ég fyrirskipun um að innheimta hjá þessum manni 7 þús. kr., er hann skuldaði pósthúsinu fyrir frímerki, er hann hafði fengið áður en ég varð ráðh. Síðan hefir hann ekkert lán fengið, en hann mun hafa fengið að skila aftur einhverju af þeim frímerkjum, er hann hefir keypt. Hinsvegar skal ég ekki að svo stöddu neinu um það spá, hvort þessi maður geti neitað að borga frímerkin, en vafalaust verður það honum til stuðnings, ef hægt verður að sýna fram á, að frímerkin hafi fallið í verði vegna fölsunar á útgáfu þeirra.

Fleira get ég ekki sagt um þetta mál. Ég ætla nú, að hv. þm. sjái, að ég get ekkert að því gert, sem aflaga kann að hafa farið í þessum efnum, og hann sjái þess vegna, að hann réðst að mér með óþarfa þjósti á laugardaginn út af þessu máli, enda er eins og hann sé nú farinn að átta sig, því nú kveður heldur við annan tón.