29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2899 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Héðinn Valdimarsson:

Ég er að sumu leyti ekki ánægður með þessi svör ráðherranna. Ég vildi gjarnan fá svar við því hjá stj., hvort heimilt sé að lána einstökum mönnum frímerki á pósthúsinu og hvernig stendur á þessu 7 þús. kr. láni til Gísla Sigurbjörnssonar. Ég hélt, að almenningur ætti ekki greiðan aðgang að slíkum lánum, og ég vildi gjarnan heyra, hvar stafur væri í lögum, er heimilaði slíkt. Hitt er aftur á móti gott að heyra, að dómsmrh. hefir ekki gefið eftir þetta lán, heldur fyrirskipað að innheimta það, þó hann hafi ekki kynnt sér, hvort það hefir verið gert. Það er kannske eðlilegt, ef fölsun hefir átt sér stað á frímerkjaútgáfunni, að Gísli Sigurbjörnsson fengi að skila aftur frímerkjum, sem hann hefir keypt, en það er einkennilegt, að það skuli hafa verið leyft áður en vitað er um, hvort nokkur fölsun hefir átt sér stað, eins og forsrh. hefir upplýst, að enn er ósannað mál. Eða er það viðskiptaregla póststjórnarinnar að lána einstökum mönnum vörur, sem þeir svo mega skila aftur, ef misheppnast með spekulationir þeirra?

Þá vil ég minnast á annað atriði, en það er eftirlitið með frímerkjaútgáfunni. Það þýðir ekki fyrir dómsmrh. að vísa til Þingvallahátíðarnefndar, þegar af þeirri ástæðu, að sú n. er ekki lengur til, og ég get ekki skilið, að þannig hafi verið um hnútana búið, að Þingvallahátíðarnefnd hafi átt að hafa eftirlit með útgáfunni eftir að n. var lögð niður. Og þar sem forsrh. var í n., ætti hann að geta skýrt frá því, hvað rétt er í þessu efni. Það var látið mikið yfir því í blöðunum, þegar verið var að semja um útgáfu frímerkjanna við hina austurrísku menn, að hér væri um að ræða mikinn velgerning frá þeirra hálfu, en nú fer maður að láta sér detta í hug, að hér hafi verið um gróðabragð að ræða, og væri æskilegt að vita, hvaða skorður Þingvallahátíðarn. hefir reist við því, að þeir misnotuðu þann rétt, er þeim var fenginn.