30.03.1933
Efri deild: 38. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

89. mál, silfurberg

Jón Baldvinsson:

Það væri náttúrlega góð og gild ástæða til að hætta við rekstur námunnar í Helgustaðafjalli, ef búið er að taka þaðan allt silfurberg. Að vísu bætti hv. 1. landsk. við „allt, sem finnanlegt er“, svo að ekki er loku fyrir skotið, eftir hans dómi, að það kunni að finnast meira.

En það, sem ég átti við áðan með því, að náman myndi hafa skemmzt, var það, að þegar einstakir menn höfðu námuvinnsluna fyrir sig, fóru þeir fram með slíkum hrottaskap, sprengdu í stórum stíl, eyðilögðu kannske miklu meira en þeir unnu. Ég er hræddur um, að aðfarir þeirra hafi verið eitthvað svipaðar aðferð fyrstu kolanemanna í Ameríku. Þeir tóku það, sem auðunnast var fyrst, og náðu á þann hátt miklum auðæfum með litlum kostnaði. En seinna sýndi það sig, að þetta var óhæfilegur námurekstur. Sama sagan var upphaflega um enskar námur. Sennilega hafa einstaklingarnir, sem unnu í Helgustaðanámu, markað svipuð spor.