31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

49. mál, Mið-Sámsstaði

Jón Baldvinsson:

Ég verð að láta í ljós þá skoðun mína, að alls ekki sé nauðsynlegt, að jörðin verði seld Búnaðarfélagi Íslands, því ef um það semdist, væri félaginn auðvelt að fá öll afnot jarðarinnar, sem það þarf, án þess að kaupa jörðina. Þetta á að vera alveg nóg fyrir félagið, og ekki verður séð, að eignarheimild bæti aðstöðu fél. neitt. Þess vegna finnst mér, að alveg ætti það að vera nóg að samþ. heimild handa ríkisstj. til þess að leigja fél. jörðina með öllum þeim afnotum og hlunnindum, sem það girnist, með góðum kjörum. Það er nú auðvitað nokkuð sérstakt, að þetta er Bún.fél. Ísl., sem í hlut á, nefnil. stofnun, sem svo mjög er tengd ríkissjóði, en ég álít samt, að það hafi enga sérstaka þýðingu að láta þessi eigendaskipti fara fram. En a. m. k. mætti gjarnan og ekki að ástæðulausu setja í frv. skilyrði um það, að Bún.fél. sé ekki heimilt að selja jörðina aftur. Ég sé, að ráðh. sá, er þetta mál viðkemur mest, nefnil. atvmrh., er ekki í deildinni nú, en ég vildi gjarnan fá tækifæri til þess að beina þeirri spurningu til hans, hvort honum þyki ekki ástæða til, að þær kvaðir verði settar í samninginn, að Bún.fél. megi ekki selja jörðina aftur, —nema þá e. t. v. ríkissjóði, og þá aðeins eftir sanngjörnu mati á endurbótum þeim og aðgerðum, sem félagið hefir látið gera á jörðinni.