02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Héðinn Valdimarsson:

Ég ætla að gera stuttorða spurningu til dómsmrh. út af frímerkjaverzluninni. Dómsmrh. sagði hér, þegar spurt var um þetta, að engin heimild væri til að lána frímerki og kvaðst sjálfur hafa áminnt þann, er lánað hefði Gísla Sigurbjörnssyni umrædd frímerki. Loks sagði hann, að gangskör hefði verið gerð að því að innheimta andvirði frímerkja hjá Gísla Sigurbjörnssyni. Ég get nú ekki annað séð en að annaðhvort hafi dómsmrh. gefið rangar upplýsingar um þetta, eða þá Morgunblaðið, sem flutti grein um þetta mál í gær og mun hafa haft sínar upplýsingar frá póstmálastjóra. Greinin hljóðar svo:

„Gísli Sigurbjörnsson keypti fyrir 10 þús. kr. hátíðarfrímerki, en greiddi þau ekki út í hönd, heldur setti tryggingu fyrir greiðslu (ábyrgðarmenn). Þegar G. Sig. var svo krafinn um greiðslu á frímerkjaandvirðinu, mun hann hafa neitað að greiða og borið því við, að frímerkin væru verðlaus, sakir þess hve mikið væri á markaðnum ytra. Þegar svo krefja skyldi ábyrgðarmennina, fyrirskipaði Tryggvi Þórhallsson, sem þá var ráðherra, að G. Sigurbj. mætti skila frímerkjunum aftur. Það mun hann svo hafa gert“.

Annaðhvort er rangt, það sem ráðh. segir, eða hlaðið. Síðar í greininni er sagt, að heimilt sé að gefa frímerkjakaupmönnum gjaldfrest. Nú vildi ég vita, hvor rétt hefir fyrir sér. — Það er og sagt í Morgunblaðinu, að þessi frímerkjakaupmaður hafi gert stór innkaup á frímerkjum, vitanlega í gróðabrallsskyni. En að honum hafi verið leyft að skila þeim aftur, þegar of mikið reyndist af þeim á markaðnum. Mér finnst of langt með þessu gengið í að styðja spekulationir frímerkjakaupmanna. Það var að heyra á dómsmrh., að hann teldi ekki rétt að gera þetta. En þó hefir það verið gert.