03.04.1933
Efri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

49. mál, Mið-Sámsstaði

Jón Baldvinsson:

Ég bað hæstv. forseta að taka málið út af dagskrá, vegna þess að ég hafði gert fyrirspurn til hæstv. kirkjumálaráðh., en hann gat ekki svarað, af því að hann var ekki viðlátinn í þinginu. Nú er hæstv. ráðh. staddur hér í þinginu, og vildi ég mælast til þess, að hann vildi svara fyrirspurninni. — Út af frv. á þskj. 55 var ég að tala um það við fyrri hluta 2. umr., að fyrst og fremst sæi ég ekki ástæðu til að selja þessa jörð, og í öðru lagi vildi ég beina því til þess ráðh., sem þetta heyrir undir, hvort hann vildi ekki setja í skilmálana við sölu jarðarinnar, að Búnaðarfél. mætti ekki selja jörðina aftur, eða ef það væri gert, þá yrði hún afhent ríkinu á þann hátt, að ríkið tæki við henni og greiddi náttúrlega þær umbætur, sem gerðar hefðu verið, eftir því sem venja er í slíkum samningum, þegar endurkaupsréttur er áskilinn. Þetta vildi ég spyrja hæstv. ráðh. um og vita, hvort hann væri ekki fús til að gera þetta, því að þá tel ég minni hættu að selja jörðina Búnaðarfél. Íslands, þó að ég telji þess ekki þörf, því hinu sama mætti ná með leigu.