02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2902 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég veit ekki, hvort hv. þm. trúir, þó ég segi honum það, að ekki er venja að lána frímerki frá pósthúsinu, heldur eru þau seld. Ég geng út frá, að þarna hafi verið um undantekningu að ræða, af því frímerkin voru ekki látin af hendi, fyrr en eftir að þau hættu að vera gild sem „porto“frímerki. Það, sem ég styðst við í þessu efni, er bréf til Guðmundar Ólafssonar hrm., sem hafði farið fram á fyrir hönd Gísla Sigurbjörnssonar, að hann mætti skila aftur 7000—8000 kr. í þessum frímerkjum, í býttum fyrir gild frímerki. En þessu var neitað. Þetta bréf er frá 29. des. 1932. Ég veit ekki, hvað gerðist löngu áður en ég tók við. Og þó ég vænti ekki mikillar sanngirni af hv. þm., þá ætti hann þó að viðurkenna það. En ég vil í þessu efni ekkert fara að ávíta mína fyrirrennara.