17.03.1933
Neðri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

40. mál, sjúkrasamlög

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Það kom í ljós við fyrri hl. þessarar umr., að menn óttuðust, að ef frv. þetta um sjúkrasamlög í skólum yrði samþ. eins og það er, þá gæti hugsazt misnotkun á styrk ríkissjóðs til sjúkrasamlaga, þannig, að þeir, sem gengju í þessi sjúkrasamlög í skólum gætu verið samtímis fyrir í öðrum sjúkrasamlögum, og þannig gæti orðið tvöföld styrkgreiðsla frá ríkinu til eins meðlims. Allshn. lofaði þá að taka málið til athugunar fyrir 3. umr. og hefir borið fram brtt. á þskj. 167, og til þess að fyrirbyggja það, að slík misnotkun væri hugsanleg, taldi hún rétt, að sett væri inn í það ákvæði um, að enginn gæti verið í fleiri en einu samlagi í senn. N. flytur jafnframt aðra breyt., sem í raun og veru leiðir af hinni fyrri, þá, að ef menn óska eftir að ganga úr einu samlagi í annað, þá sé það gert sem kostnaðarminnst fyrir þá, þannig að ekki sé krafizt sérstaks inntökugjalds eða læknisskoðunar og þar komi ekki aldur til greina, ef menn hafa verið í öðru samlagi áður. En n. fannst rétt að setja ekki þetta sem almennt ákvæði, heldur sem heimild fyrir samlögin, að mega taka menn úr einu samlagi í annað, ef ekki sýndist ástæða til, að læknisskoðun færi fram. Það er rétt, að sjúkrasamlögin hafi það sjálf á valdi sínu að ákveða um þetta.