06.03.1933
Neðri deild: 17. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

44. mál, hjúkranarkvennalög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Eins og sjá má á nál. á þskj. 91, leggur n. til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt. Hér er um nýmæli að ræða, þar sem engin lög eru áður til um þetta efni. N. hefir fallizt á rök hv. flm. fyrir því, að nauðsynlegt væri að setja ákvæði í löggjöfina um réttindi og skyldur hjúkrunarkvenna. Þær þurfa að leggja á sig allmikið nám og er því ekki nema eðlilegt, að þær fái einhver hlunnindi frá því opinbera.

Í 2. gr. frv. segir svo: „Ekki má ráða aðrar konur en þær, sem eru fullgildar hjúkrunarkonur samkv. 1. gr., til sjálfstæðra hjúkrunarkvennastarfa við sjúkrahús, sjúkraskýli“ o. s. frv. — Sú skoðun kom fram í n., að svo gæti staðið á í sveitum t. d., að ekki væri hægt að fullnægja þessu ákvæði. Þar eru það oftast smásjúkrasamlög og lítil sjúkraskýli, sem varla gætu staðið straum af þeim kostnaði, sem leiddi af því að hafa lærða hjúkrunarkonu á föstum launum. En í 4. gr. frv. er veitt svo víðtæk heimild til undanþágu, að n. taldi sig ekki þurfa að bera fram brtt. um þetta atriði. Það er víða úti um land, að ýms sveitafélög, t. d. kvenfélög, hafa á vegum sínum nokkurskonar hjúkrunarkonur, sem geta hjálpað til á heimilum, þegar illa stendur á, og gegnt þar bæði hjúkrun og almennum húsverkum. N. taldi, að slíkar konur myndu ekki falla undir ákvæði þessara l. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.