15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

44. mál, hjúkranarkvennalög

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv. Mér finnst það nokkuð langt gengið, svona í byrjun, að gera það að skyldu öllum þeim stofnunum og félögum, sem hjúkrunar- og líknarstarfsemi hafa með höndum, að taka ekki aðrar hjúkrunarkonur í sína þjónustu en þær, sem tekið hafa próf við hjúkrunarkvennaskólann hér í Rvík, sem eins og kunnugt er er í sambandi við landsspítalann. Það er mjög stutt síðan sá skóli tók til starfa, því lög um hann voru sett á síðasta þingi. Þess vegna getur vitanlega ekki verið um nema sárafáar hjúkrunarkonur að ræða, sem hafa lokið þar prófi enn sem komið er, ef þær eru nokkrar. Auðvitað fjölgar þeim smátt og smátt. En mér finnst þó nokkuð hart að gengið, ef gera á þeim félagsskap, sem víða er kominn upp úti um landið og vinnur meira eða minna að hjúkrunarstarfsemi, svo þröngt fyrir dyrum, að banna honum að ráða til sín hjúkrunarkonur, sem ekki hafa þetta sérstaka próf. Að vísu er í frv. ákvæði um, að heilbrigðisstj. geti veitt undanþágu frá þessu, enda gat ekki komið til nokkurra mála að gera þetta próf strax að undantekningarlausu skilyrði fyrir að mega ráða til sín hjúkrunarkonu, því það hefði verið sama sem að útiloka alla hjúkrunarstarfsemi víðast hvar á landinu. Eftir frv. geta menn leitað til heilbrigðisstj., þegar ekki er hægt að fá hjúkrunarkonu með hinu tilskylda prófi, og hefir hún þó ekki í sumum tilfellum vald til þess að veita undanþágu, heldur þarf samþykki þeirra manna, sem kennslu hafa á hendi við hjúkrunarkvennaskólann, að koma til.

Nú er það alkunnugt, að víðsvegar úti um landið starfa hjúkrunarkonur, bæði á vegum sjúkraskýla, sjúkrahúsa, sjúkrasamlaga og margskonar annars félagsskapar, sem heitir sér fyrir hjúkrunar- og líknarstarfsemi. Þannig hafa kvenfélögin víða átt lofsverðan þátt í slíkri starfsemi, sem vitanlega er ekki síður þörf og nauðsyn í strjálbýlinu heldur en þéttbýlinu. Það er því til fjöldi hjúkrunarkvenna, sem hafa aflað sér nægilegrar reynslu og lærdóms til þess að gegna starfi sínu sómasamlega, bæði með starfi sinn á sjúkrahúsum og af samstarfi sínu við héraðslæknana. Með tilliti til þess hefði ég haft tilhneigingu til þess að gera víðtækari breyt. á frv. heldur en ég fer fram á með brtt. minni. T. d. held ég, að gjarnan hefði mátt breyta því ákvæði, að þær hjúkrunarkonur einar megi framvegis kalla sig því nafni, sem hafa tekið próf á hjúkrunarskóla. Mér finnst vel geti komið til mála, að þær konur, sem lært hafa hjúkrunarstörf, megi áfram kalla sig hjúkrunarkonur, þó þær hafi ekki þetta sérstaka próf, eða jafnvel ekki beinlínis verið á hjúkrunarskóla. Og það eru fleiri atriði, sem ég hefði talið rétt að breyta. En ég flyt þó aðeins brtt. við 2. gr., sem gengur út á það, að undir ákvæðið um, að sjúkrastofnanir megi ekki ráða til sín aðrar hjúkrunarkonur en þær, sem hafa próf, falli ekki sjúkrasamlög né önnur almenn hjúkrunarstarfsemi á vegum líknarfélaga og sveitarfélaga. Það má gera ráð fyrir, að það verði nokkur kostnaðarauki fyrir slíkan félagsskap að ráða til sín hjúkrunarkonur með fullkomnu prófi, fram yfir það að hafa aðrar hjúkrunarkonur, sem undir mörgum kringumstæðum hafa ekki þurft að leggja eins mikinn kostnað í sölurnar fyrir sína hjúkrunarmenntun. Og mér finnst fyllilega réttmætti að binda ekki þessa þörfu starfsemi, sem oftast er haldið uppi af efnalitlum félögum, við það, að hafa hjúkrunarkonur með fullum réttindum.

Ég skal taka það fram, að það er eftir fullkomnu samkomulagi við flm. frv., að ég flyt þessa brtt. Er því ekki um neinn ágreining við hann að ræða. Og ég geri ráð fyrir, að við þá hv. n., sem mál þetta hefir til meðferðar, verði heldur enginn ágreiningur, því mér finnst varnagli sá, sem hv. frsm. var að slá við 2. umr., einmitt ganga í sömu átt og brtt. mín.

Að lokum vil ég taka fram, að þó ég tæki ekki þá leið, að undanskilja einnig t. d. sjúkraskýli frá þeirri skyldu að hafa fullgildar hjúkrunarkonur, þá tel ég það leiða af sjálfu sér, að heilbrigðisstj. verði að veita þeim sjúkraskýlum undanþágu, sem ekki hafa nema sárafáa sjúklinga á ári, ef þau óska eftir því og geta séð vel fyrir starfsemi sinni á annan hátt.