15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

44. mál, hjúkranarkvennalög

Jóhann Jósefsson:

Ég þakka hv. þm. Borgf. fyrir það, að hann viðurkennir, að það hafi verið rétt hjá mér að koma fram með brtt., en hinsvegar finnst mér hans tilslökun í þessu efni ganga skemmra en rétt væri. Héraðsskólarnir eru náttúrlega sjálfsagðir. Það er ómögulegt annað en að þeir, jafnstórir og þeir eru, verði að koma undir ákvæði laganna; en það eru aðrir skólar, sem hv. þm. vill undanskilja, eins og t. d. bændaskólana, húsmæðraskólana. o. fl., sem mér finnst vera alveg óþarft að undanskilja.

Ég geri ekki ráð fyrir, að við litla barnaskóla í sveit verði ráðnar sérstakar hjúkrunarkonur; mér þykir það næsta ólíklegt. Það þarf ekki að stafa hætta af því, að ákvæðið nái til skóla yfirleitt.

Það var nokkuð mikið ofsagt hjá hv. þm., að ég teldi undanþáguheimild 2. gr. vera höfuðkost frv. Svo var það ekki, en ég tel það kost á frv. og nauðsynlegt ákvæði, en ekki höfuðkost. Ég tel það ákvæði geta verið fullnægjandi hverju sveitarfélagi, líknarfélagi og því um líkum félagsskap, sem vill sækja um annað en lærða hjúkrunarkonu til að starfa fyrir sig. Það, sem þar um ræðir, getur ekki valdið mikilli skriffinnsku.

Hvað stéttafélagsskap hjúkrunarkvenna viðvíkur, þá þýðir ekki að loka augunum fyrir þeirri staðreynd, að stéttir þjóðfélagsins hafa með sér félagsskap og hafa siðferðislegan rétt til þess að standa saman um sína hagsmuni, og ef svo er, hvers vegna skyldu hjúkrunarkonur ekki eiga að hafa þann sama rétt? Þær velja sér sannarlega þá lífsbraut, sem hvorki er svo hæg og ekki heldur svo geðfelld í ýmsum tilfellum, að þegar þær hafa varið fleiri árum til náms til þess að mennta sig í hjúkrun, þá á ekki að leggja neinn stein í götu þeirra að því er það snertir að gera kost þeirra og hag í þjóðfélaginu sæmilegan. Mér liggur við að segja, að brýning hv. þm. til þeirra manna hér í hv. d., sem sérstaklega bera hag sveitarfélaganna fyrir brjósti, sé næsta brosleg, því að það verður nú sjálfsagt almennt litið svo á, að þegar tekið er tillit til allra hluta, muni það ekki vera óhyggilegri ráðstöfun að hafa lærða í stað ólærðrar hjúkrunarkonu á þessum stöðum.