24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

118. mál, einkaleyfi

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Með frv. á þskj. 205, sem flutt er af sjútvn., er áformað að veita Sveini Árnasyni á Seyðisfirði einkaleyfi um 5 ár til útflutnings og sölu á sérstaklega verkaðri tegund af saltfiski, sem útlit er fyrir, að geti orðið mun verðmætari, þegar verkunin er fullkomlega þekkt og reynd, heldur en fiskur, sem er verkaður á venjulegan hátt.

Ef til vill líta einhverjir svo á, að ekki hafi þurft að leita til Alþingis með erindi þetta, heldur hefði mátt nægja að leita hjá ríkisstj. einkaleyfis samkv. l. frá 1923. En með því að þau l. binda einkaleyfistíma við 15 ár og ýms önnur óhagfelld skilyrði, hefir þessi leið verið valin. Nú er gert ráð fyrir, að sú verkunaraðferð á fiski, sem hér um ræðir, geti orðið almenningi fullkunnug og tiltæk á stuttum tíma, og er því með frv. miðað við hæfilega tímalengd fyrir leyfisbeiðanda til að kenna aðferðina og afla vörunni álits.

Leyfisbeiðandi nefnir þessa fisktegund „Magna“, en hún er afbrigði þeirrar tegundar saltfiskjar, sem um nokkur ár hefir gengið á markaði Suðurlanda undir nafninu „shorefish“.

Mér þykir rétt að geta þess, sem reyndar er tekið fram í grg. frv., að leyfisheiðandi hefir um nokkurt árabil gert tilraunir með þessa vörutegund og er kominn vel á veg með að afla henni álits á markaði í Suðurlöndum.

Til skýringar má nefna það, að þessi verkunaraðferð er að því leyti frábrugðin þeirri almennu verkun á saltfiski, að gerð er látin koma í fiskinn á tilteknu verkunarstigi, sem alls ekki á sér stað við venjulega fiskverkun, og það er einmitt sú gerð, sem verður að ná vissu marki, en hvorki vera meiri né minni, að ekki spillist fiskurinn. Er því nokkurt vandhæfi á að framleiða vöruna, svo að útgengileg sé og njóti álits. Þess vegna er líka nauðsynlegt, að verkun fari fram í fyrstu undir handleiðslu leyfisbeiðanda, meðan æfingu skortir.

Það hefir að vísu verið reynt áður af einstöku mönnum að verka fisk á þennan hátt og senda hann til Suðurlanda, en þær tilraunir hafa meira og minna mistekizt, allt þangað til þess „Magna“fiskur kom til sölunnar, sem nú er ráðgert, að geti komið á almennan markað að einkaleyfistímanum liðnum.

Á þessum 5 árum hugsar leyfisbeiðandi sér að kenna almenningi til og frá í verstöðvum landsins að hagnýta þessa aðferð svo vel, að ekki verði hætta á, að tilraunir mistakist. Má því ætla, að sá hagnaður, sem að þessu mætti verða, geti orðið almenningseign að þeim tíma liðnum eða jafnvel að nokkru leyti fyrr, ef leyfisbeiðanda tækist vel á fyrsta ári að undirbúa sölu. Mundu þá jafnvel þau fiskikaup, sem hann gerði í sambandi við sérleyfið, geta orðið arðvænleg fyrir framleiðendur. Leyfisbeiðandi hefir sem sé skuldbundið sig til að flytja út árlega a. m. k. 300 smálestir af vöru þessari eftir árslok 1933. Það er að vísu ekki mikill hluti af öllum útfluttum saltfiski, en þá er líka við lágmark þess miðað, sem hann hyggst að flytja út árin 1934—38. Mætti því fara svo, áður en þessi 5 ár liðu, að þetta útflutningsmagn yrði að miklum mun aukið.

Eins og 4. gr. frv. ber með sér, þá vill leyfisbeiðandi taka á sig ýmsar skuldbindingar leyfisins vegna, tiltölulega strangar, og má af því marka, að hér er ekki um alvörulítið fyrirtæki að ræða.

Ég ætla ekki að tefja tímann eða fjölyrða frekar um þetta mál. Ég þykist vita, að einhverjir hv. þdm. muni vilja leggja til, að frv. fari til n. Sjálfur sé ég ekki ástæðu til að gera till. um það, því að málið er komið frá n. og var þar rækilega undirbúið.

Ég er sannfærður um, að hér er um gott mál að ræða, og teldi ég það óhapp, ef frv. næði ekki lögfestingu á þessu þingi.

Ég hefi einnig persónuleg kynni af þessum manni, sem hér á hlut að máli, og veit, að hann skortir hvorki áhuga né þrautseigju við að koma málum sínum fram og gefst ekki upp við fyrstu þraut, sem fyrir honum verður.