14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1744)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég ætla að segja hér nokkur orð í tilefni af ávítum hv. 2. þm. Reykv. til stjórnarinnar. Hv. þm. sagði að vísu, að hér mundu flestir þm. svo flokksbundnir, að þeir mundu ekki taka neinum rökum. Hann má frómt úr flokki tala. Hann hefir búizt við, að kjósendur úti um land væru ekki svo flokksbundnir, að það mætti draga einhverja þeirra yfir í þann flokk, sem hann er i, en ég vil leyfa mér að efast um, að það hafi tekizt með þeim rökum, sem hann hafði fram að færa.

Hv. þm. hefir spurt um það, hvort stj. gerði stjórnarskrármálið að fráfararatriði, ef það verður fellt. Ég býst við, að þetta sé eitt höfuðatriði þessa máls og margra annara, hvort ekki sé hægt með einhverju mögulegu móti að láta stjórnina segja af sér. Þetta eru skýringar á ýmsum fullyrðingum, sem hv. þm. hefir borið fram. Það er rétt, sem hv. þm. hefir eftir mér úr einkasamtali, að ég hafi sagt, án þess að hafa leitað eftir, í hvað mikilli alvöru hafi verið talað (HV: Það var ekki einkasamtal). Jú, það var einkasamtal inni í ráðherraherbergi, en mig gildir einu, hvort það var einkasamtal eða ekki. Ég sagðist hugsa, að á bak við þá samninga, sem ég hefi tekið að mér að flytja hér á Alþingi, og norska stjórnin tekið að sér gagnvart norska Stórþinginu, lægju þær skoðanir, að við hefðum þegar notið stórra hlunninda vegna þeirra, og það er ekki hægt að eiga samtal við erlenda stjórn um stóra hluti eins og þessa samninga, án þess að því fylgi nokkur ábyrgð að flytja þá í sínu landi.

Hv. þm. las upp úr grg. Sveins Björnssonar sendiherra nokkur ummæli um fiskiveiðalöggjöf okkar. Það hefði mátt lána honum plögg úr skjölum nefndarinnar, sem starfaði nú á síðasta ári, því að það eru nákvæmlega sömu hugsanirnar, skýringarnar og grundvallaratriðin og í fiskiveiðalöggjöfinni, en honum láðist bara að geta þess, að þeir, sem þessar greinargerðir sömdu, sömdu og fiskiveiðalögin sjálf, en Jón Krabbe, sem var aðalmaðurinn, hann taldi einmitt, að fiskiveiðalöggjöfin gæti ekki alveg útilokað alla aflasölu hingað til lands. Það, sem allt veltur á í þessu efni, er í 3. gr. frv. Þar stendur, að skip megi ekki hafast við í landhelgi, og það er áreiðanlegt, að þetta hefir jafnan verið skýrt svo, að skipin megi ekki selja nema einn túr í einu. Þetta er skýrt gagnvart togurum og síldveiðaskipum. Vegna síldveiðiskipanna hefir þetta verið skýrt svo, að þau mættu ekki öll selja meira en 50—700 tunnur í einu, og einmitt 1924, með samningunum, sem þá voru gerðir, var þetta staðfest vegna Norðmanna, og það var eitt af því, sem stóð á bak við þá samninga, sem hv. þm. vitnaði í. En það var rangt hjá hv. þm., að þessi réttur hafi verið tekinn af Norðmönnum þegar síldareinkasalan var sett á stofn. Það var enginn réttur tekinn af Norðmönnum, sem seldu í land. Þeir máttu setja í land hvað sem þeir vildu, en þeir urðu bara að selja síldareinkasölunni. (HV: Þeir þurftu söltunarleyfi). Jú, vitanlega, og þeim leyfum voru ekki sett nein takmörk með því, og principielt hefir þessi réttur aldrei verið af Norðmönnum tekinn, og almenningi er kunnugt um, að þessi réttur hefir þráfaldlega verið notaður af erlendum skipum og til þessa tíma af norskum línuveiðurum, sem hafa selt með góðu samþykki allra jafnaðarmanna talsverðan fisk, og hefir stundum verið talið, að atvinnubætur væru að því. En þegar fulltrúi jafnaðarmannaflokksins hér á þingi túlkar erlenda fiskiveiðalöggjöf, þá má benda honum á, að hv. sessunautur hans, sem var að hvísla einhverju í eyra hans, hefir eitthvað talað um, að atvinnubætur væru að því fyrir verkamenn, að fleiri útlendingum væri hleypt inn í landið. Það hefir jafnan verið skoðun jafnaðarmanna, að þessi einokun á íslenzkri framleiðslu væri óþolandi fyrir hina vinnandi stétt í landinu. Annaðhvort hafa þeir ekki haft rétt fyrir sér áður, eða þeir eru farnir að halda fram skoðunum auðvaldsins í landinu, þegar hv. þm. G.-K. hefir brugðizt. En sennilega mun þó hitt vera, að hv þm. G.-K. hafi sömu aðstöðu um þessa hluti og áður. Hann hefir haldið því fram, að fiskiveiðalögin ætti að framkvæma eins strangt og hægt er gagnvart öðrum þjóðum. En fyrir því geta verið takmörk sett, og við getum spillt fyrir okkur með því að framfylgja þeim svo ósanngjarnlega, að slíkt þekkist ekki nokkursstaðar í heiminum annarsstaðar. Það getur líka verið skilyrði fyrir gæfu og gengi að kunna sér hóf um framkvæmd ákvæða gagnvart öðrum þjóðum.

Það hefir jafnan verið svo í okkar landi, að einmitt þessi réttindi, sem eru og voru samkv. fiskveiðalöggjöfinni, hafa verið opin fyrir öllum jafnréttháum þjóðum. En það er eins og nú í sambandi við þessa samninga gægist upp ýmsar aths., sem hefðu verið eins réttmætar í fyrra eða fyrir 10 árum, en það er eins og nú fyrst sé farið að tala um og reyna að telja mönnum trú um, að nú sé sköpuð glufa, sem þó alltaf hefir verið til. Ég leyfi mér að fullyrða, að þegar stj. var falið að hefja samningaumleitanir við Norðmenn, ef þess yrði gefinn kostur, þá hafi enginn þm. gert sér vonir um, að hægt væri að loka nokkru sundi fyrir þeim, heldur yrði að opna eitthvað.

Sá eini þm., sem hefir látið í ljós, að uppsögn á samningnum við Norðmenn væri kannske fullströng, hann var úr jafnaðarmannaflokknum. Það kemur því úr hörðustu átt að áfella mig fyrir að hafa látið dragast að segja upp verzlunar- og siglinga samningnum við Noreg. Ástæðan til þess var sú, að tilgangur stj. og þeirra manna, sem hún í samráði við afréð þetta, var sá, að reyna að fá bráðabirgðasamninga við Noreg og þannig vinna tíma til þess að geta gengið til samninga á næsta ári, svo að þeir yrðu fullgerðir fyrir þetta þing.

Ég lagði fram um mánaðamótin júní og júlí tilboð um að fá áður gildandi kjöttoll lækkaðan um 1/3 og að það gilti sem bráðabirgðasamningur þangað til tekið yrði til yfirvegunar allt viðskiptasamband landanna nú fyrir þetta þing. Þegar þetta brást, þá var ekkert hik á mér að segja upp samningnum, og það hafði sína þýðingu.

Hv. þm. áfelldi mig fyrir það, að ég skuli ekki hafa strax og samningnum var sagt upp, kippt öllum réttindum undan Norðmönnum hér við land. Eftir því að dæma, þá virðist hann hafa gengið út frá því, að Norðmenn hefðu haft einhver réttindi hér áður. En hvaða réttindum var þá upp að segja? (HV: Samkv. samningum frá 1924). Það er einmitt sá rétti samanburður, að bera saman þessa samninga og samningana 1924, eins og hv. þm. G.-K. gerði, en sá samanburður er bara sterkari í höndum hans, og hins vegar láðist hv. 2. þm. Reykv. að gera þennan samanburð.

Það er nú svo, að það hafa komið kröfur úr ýmsum áttum um það, að svipta Norðmenn réttindum. Nefndir, sem verkamenn og sjómenn sendu, gerðu engar kröfur um að verksmiðjurnar á Krossanesi og Raufarhöfn hættu að starfa, þær spurðu bara, hvaða ráðstafanir stj. gati gert til þess að koma sem flestum verksmiðjum í gang og kröfðust sem mestrar vinnu. Það var m. a. í samráði við þessar nefndir, sem ríkistj. leitaðist við að koma af stað sem mestri vinnu, en nú kveður við annan tón hjá hv. 2. þm. Reykv. Í fyrra var það atvinna handa verkafólkinu, en nú er það kjósendur handa flokknum og fráför stjórnarinnar.

Það var vitanlegt, að ekki gat komið til mála að byrja á því að gerbreyta öllu ástandinu með uppsögn samninga áður en byrjað var að semja við stjórn Noregs. Við stóðum engu betur að vígi fyrir það. Og ég hygg, að vil hefðum að auki fengið orð í eyra frá jafnaðarmönnum og blöðum þeirra fyrir slíka ráðstöfun, sem svipt hefði fjölda manns atvinnu yfir sumarmánuðina, eigi síður en fyrir þennan samning.

Þá bar hv. þm. það á hv. þm. G.-K., að hann hafi vegna pólitískra hagsmuna sinna fengið því framgengt, að samningurinn var ekki birtur fyrr. Jafnframt vildi hann sýna fram á, að sterk bönd væru milli mín og hv. þm. G.-K. Það er alveg rétt, að svo er í þessu máli, og ég hirði ekkert um að breiða neitt yfir það. Ég er sammála hv. þm. G.-K. og ræðu hans um þetta mál. Í hans löngu ræðu voru réttvísar og góðar skýringar, og er ég honum þakklátur fyrir þær. Ég er viss um, að eftir að þau rök eru fram komin, verður erfiðara að villa sýn um þessa samninga. En um birtingu samningsins má geta þess, að það er algild regla allra stjórna, að birta ekki mjög fljótt viðskiptasamninga, er þær gera sín á milli og ekki löngu áður en þeir koma til framkvæmda. Er það m. a. gert til þess, að ekki sé hægt að þyrla upp um þá moldviðri og hefja um þá illvígar innanlandsdeilur. Má sem dæmi um það nefna Ottawasamningana, er gerðir voru á síðasta ári. Þeir voru alls ekki birtir fyrr en um sama leyti og þingin áttu að taka ákvörðun um þá og það af þessum ástæðum. Stundum eru slíkir samningar alls ekki birtir almenningi. Þingið afgreiðir þá á lokuðum fundi og ber, ásamt stjórninni, ábyrgð á þeim. — Þetta er algengt. En þegar hér er í fyrsta sinn um það að ræða, að gera slíkan lögformlegan samning við aðra þjóð, þá leggur stj. samninginn opinberlega fyrir þingið í frv.formi. (HV: Hún var neydd til að gera það.!) Hver neyddi hana til þess? Enginn! Hún gerði það hiklaust og hispurslaust og ótilneydd.

Ég get ekki verið að rekja hvert einstakt atriði hjá hv. 2. þm. Reykv. Ég held, að þeim hafi flestum eða öllum verið svarað fyrirfram af hv. þm. G.-K. Og ég veit, að hlustendur muna svo vel ræðu hans, að þeim muni hafa komið svörin í huga jafnóðum og þeir heyrðu mótbárur hv. 2. þm. Reykv. gegn atriðum samningsins. Ég vil þó minna á, að í ræðu hv. þm. kom lítt fram, að hann hugsaði um hagsmuni bænda og sölumöguleika á afurðum þeirra. Í þinglokin í fyrra var alger óvissa um, að nokkur sala yrði möguleg á saltkjöti til Noregs og að nokkur tolllækkun fengist þar. En hvorttveggja þetta fæst með þessum samningi. Þetta er sú hliðin, sem að bændunum snýr. Og ef eitthvað er rétt í því, sem hv. 2. þm. Reykv. heldur fram, að meira verði saltað af síld hér á landi, þá þýðir það aukna atvinnu fyrir verkafólkið á Norðurlandi. (HV: Hvað segja Siglfirðingar um það?) Ég held, að þeir hljóti að segja allt gott um þennan samning. (HV: Þeir samþ. mótmæli gegn samningnum með öllum greiddum atkv. gegn 2!) — Það er leiðinlegt, ef þeir hafa gert það, áður en þeim var skýrt frá efni samningsins. Ég held nú reyndar ekki, að mikil breyt. verði á söltun vegna þessa samnings, eins og hv. þm. G.-K. sýndi ljóslega í sinni ræðu. En ef nokkuð yrði, þá ætti það að verða til þess að bæta hag verkamanna með aukinni vinnu. Sú hlið samningsins, sem snýr að verkamönnunum, er því þeim til hagsbóta. Hv. 2. þm. Reykv. hefði ekki átt að gleyma því, þótt hann gleymdi bændunum og þeirra hag.

Það eru að vísu fleiri atriði af því, sem hv. 2. þm. Reykv. gerði að umtalsefni, sem vert væri að tala um. Ég skal þó aðeins drepa á sum þeirra.

Hv. þm. gerði að umtalsefni það ákvæði 6. gr., að Norðmönnum er heimilt að segja samningnum upp með þriggja mán. fyrirvara, ef sá réttur, sem þeim er gefinn í samningnum er gerður „illusoriskur“ með einhverjum hætti, t. d. með einkasölu eða öðru þessháttar. Norðmenn vildu láta slíka uppsögn gilda fyrirvaralaust. En það fékkst þó áunnið, að ákveðinn var 3 mán. uppsagnarfrestur, ef réttur þeirra samkv. samningnum er á einhvern hátt að engu gerður.

Þá vildi hv. þm. líka gera þá kröfu, að fyrst kjötmagnið, sem flytja má til Noregs og nýtur lækkaðs tolls, fer minnkandi og er skammtað, þá hefði um leið verið samið um ákveðið verð á því. Svoleiðis samningar eiga sér nú, mér vitanlega, hvergi stað, nema milli Rússa og annara þjóða, sem er af því, að rússneska ríkið annast sjálft alla verzlunina, svo sem kunnugt er. Annarsstaðar þekkist þetta ekki. Og þó heppilegt sé, að þjóðir komi sér saman um vissa „kóda“ og geri það um sölu og annað þessháttar, þá er verðtrygging yfirleitt óþekkt í því sambandi um samninga, er gilda eiga um lengri tíma.

Þá taldi hv. þm. hættulegt að veita Norðmönnum þessar tilslakanir, vegna þess að aðrar þjóðir mundu fara að sækjast hér eftir landi og landhelgi. Væri þá sjálfstæðinu hætta búin. Ég býst nú við, að hv. þm. hafi einkum meint þetta til sjálfstæðismanna. En þótt hv. 2. þm. Reykv. vilji loka okkar landhelgi, þá vill hann þó sjálfur helzt hvergi vera annarsstaðar en í landhelgi hinna flokkanna. En það slær nú engum ótta á mann út af því.

Þessi samningur er til þess gerður að gera lífvænlegra á landi hér en annars væri. Og hann verður samþ. vegna þeirra þúsunda manna, sem hagsmuna eiga að gæta vegna þeirra hlunninda, er samningurinn veitir.