14.03.1933
Neðri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég get verið fáorður um þau atriði samningsins, sem lúta að síldarútveginum. Umr. hafa þegar sýnt, að þar eru naumast fleiri en 4 atriði, sem hægt er að deila um:

I. Að norskum verksmiðjum, sem nú eru hér á landi, er samkv. samningnum veitt leyfi til þess að kaupa allt að 60%, af bræðslusíld sinni af erlendum skipum. En þar virðast andmælendur gleyma því, að samkv. samn. frá 1924 hafði norska síldarverksmiðjan óskilorðsbundna heimild til að kaupa afla af erlendum skipum. Að ísl. stjórnarvöld hafa smám saman takmarkað þessa heimild niður í 40% hafa Norðmenn jafnan skoðað sem samningsrof. Árið 1924, þegar norska verksmiðjan (Krossanes) fékk ótakmarkaða heimild til þess að kaupa bræðslusíld af útlendingum, stóð öðruvísi á en nú. Þá höfðu Íslendingar ekki í neitt annað hús að venda um sölu á bræðslusíld. Íslendingar áttu þá sjálfir enga bræðslustöð. Þeim voru því þá allar aðrar dyr lokaðar til þess að verða af með bræðslusíld sína en að krjúpa að fótum forstjórans í Krossanesi með þá síld, sem honum þóknaðist að kaupa af þeim, — þar sem hann gat keypt alla síldina af samlöndum sínum.

Nú horfir þó öðruvísi við. Íslendingar eiga sjálfir umráð yfir 3 stórum verksmiðjum, er munu kaupa eingöngu af Íslendingum og eru á engan hátt upp á Norðmenn komnir. Auk þess mun oss nú gefast tækifæri til að taka á vorar hendur 5. verksmiðjuna. Það er því augljóst mál, hversu miklu betur vér Íslendingar stöndum að vígi að taka þessum samningi nú, heldur en vér stóðum til að taka samningnum 1924. Og fengu þeir samningar þó engin veruleg andmæli, heldur var þeim þvert á móti tekið með ánægju af sumum þeim, sem eru andvígir þessum samningi nú. Auk þess hefi ég ekki orðið þess var, að menn vilji slá hendi á móti þeirri geysilegu atvinnu, sem erlendar síldarverksmiðjur hafa veitt. Hér var á þingi í fyrra mikil óvissa um, hvort síldarverksmiðjan á Raufarhöfn mundi starfa á því sumri, sem þá fór í hönd. Ég varð ekki var við, að því væri tekið sem neinum gleðitíðindum. Hér var líka á þingi í fyrra borið fram frv. um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa erlendum manni að reisa síldarverksmiðju á Seyðisfirði og leyfa honum að starfrækja hana í 30 ár. Sú verksmiðja átti líka að fá leyfi til þess að kaupa síld af erlendum fiskiskipum. Ég býst ekki við, að þetta frv. hafi verið borið fram af einskærri ást á útlendingum. Ég tel alveg víst, að frv. hafi einmitt verið borið fram vegna ástar á innlendum verkamönnum og af umhyggju fyrir atvinnuveg þeirra. Flm. hefir þótt það tilvinnandi að veita útlendingum nokkur fríðindi, til þess að koma af stað atvinnurekstri, sem vér Íslendingar höfðum ekki bolmagn til að koma sjálfir á fót. Og þeim þótti það ekki áhorfsmál, til þess að geta bjargað, ef unnt væri, verkafólkinu frá atvinnuskorti.

Þegar um það tvennt er að ræða, annaðhvort að veita erlendum atvinnurekanda nokkur takmörkuð réttindi hér í landinu, eða að fólkið standi uppi atvinnulítið eða atvinnulaust, þá hefir a. m. k. hingað til svo virzt sem menn vildu meta meira líf og afkomu fólksins. Og á síðastl. þingi ætluðu sumir andstæðingar þessara samninga að bjarga lífi og afkomu verkafólks með því að leyfa útlendingi að reisa hér nýja síldarverksmiðju og leyfa henni að kaupa a. m. k. nokkurn hluta bræðslusíldarinnar af útlendingum.

II. Um hið annað ágreiningsatriði, að því er viðkemur leyfi útlendra síldveiðiskipa til að selja nokkuð af afla sínum í land til söltunar, hefir þegar verið sýnt fram á, hve sú breyt. er óveruleg. Áður hefir útlendingum verið leyft að selja hér í land 500—700 tunnur af hvaða skipum sem væri. Hinsvegar hefir þetta leyfi nú verið bundið alveg sérstökum skilyrðum. Í annan stað er sú rýmkun, sem í samningnum felst, bundin enn þrengri skilyrðum. Munu Norðmenn hafa fallizt á þessar takmarkanir aðeins vegna þess, að þeir vildu sjálfir koma í veg fyrir, að síldarútvegur þeirra færðist yfir á hendur stórkapitalismans. Og verður að ætla, að það sé ekki öllum andstæðingum samningsins mjög í gegn skapi.

Ill. Þriðja ágreinigsatriðið í þessu máli er heimildin til þess að búlka afla og útgerðarvörur inni á höfnum, svo sem færa tunnur af þilfari í lest og úr lest og á þilfar, ásamt viðgerðum veiðarfæra á höfnum inni. Þetta hefir nú verið gert áður. En nú er leyfi þetta bundið við einungis tvær hafnir. Og það þær hafnirnar, sem sízt verður við komið veiðiskap í landhelgi, á inn- eða útsiglingu. Er með leyfi þessu að mestu leyti tekin frá síldveiðimönnum sú freisting að fara í þessu skyni inn á sæmileg lægi, þar sem minna ber á og nota um leið tækifærið til að veiða í landhelgi.

IV. Er þá komið að fjórða atriðinu, sem gæti talizt ívilnun til Norðmanna í þessum samningi. Og það er um afgreiðslugjald skipa, sem leita hafnar í neyð. Samkv. samningnum eiga slík skip að greiða venjuleg gjöld fyrir tollskoðun og heilbrigðiseftirlit og hafnsögumannsgjald og hafnargjald, ef um slík afnot er að ræða. En hér er afgreiðslugjaldinu sleppt. En þá má minna á, að eftir samningnum frá 1924 er þessum skipum ekki gert að greiða fullt afgreiðslugjald. Og eftir 1. frá 1931 ber ekki að greiða slíkt gjald nema einu sinni á ári, þegar erlend fiskiskip eiga í hlut. Og þegar þess er gætt, að innheimta mun oft vafasöm á þessum gjöldum, þá er hér vissulega ekki um mikið deilt.

Um önnur atriði samningsins er það að segja, að þau fela ýmist í sér staðfesting á áður gerðum samningum, þ. á. m. beztu kjara samningi við aðra þjóð, eða þau eru núgildandi 1. samkvæm, nema þar sem um ívilnanir er að ræða Íslendingum til hagsbóta, frá því, sem áður hefir tíðkazt. Ég kem þá að því, sem kemur í staðinn. Hvað hinn höfuðatvinnuvegurinn, landbúnaðurinn, vinnur við samninginn.

Því hefir verið fleygt, að landbúnaðinum hafi ekki verið þörf á þessum samningi. Og hafa menn byggt það á því, að síðastl. haust hafi útflutningsheimildin á saltkjöti til Noregs ekki verið notuð til fulls. Ég skal þá geta þess, að skýrslur um þetta eru ekki komnar, svo að fyllilega verði um þetta vitað, þar sem m. a. vantar upplýsingar um hve mikið af því kjöti, sem talið er selt til Danmerkur, hefir í raun og veru farið til Noregs. Þá má geta þess, að fregnin um það, að norsk-íslenzku samningarnir hefðu loks tekizt, kom ekki hingað fyrr en komið var fast að sláturtíð. Allt sumarið höfðu menn hálft í hvoru búizt við að allir samningar mundu stranda. Og því höfðu menn af kappi búið sig undir það að verka kjötið á annan hátt, þar sem samningarnir í Ottawa voru ekki Íslendingum kunnir fyrr en komið var að haustnóttum. Af því leiddi, að söltun varð töluvert minni en við mátti fastlega búast. Auk þess kom og til það hvorttveggja, að bændur voru óvanalega vel heyjaðir og freistuðust því síður til að farga skepnum fyrir hið lága verð, og annað hitt, að fé reyndist víða á landinu um 10—20% rýrara til frálags en venja hefir verið til undanfarin ár. Af þessu verða því alls engar ályktanir dregnar. Hinsvegar verður að ætla það, að næsta haust, þegar fé hefir svo stórlega fjölgað í landinu, þá muni ekki gripinn í hverju landi sá markaður, sem samkv. samningnum fæst í Noregi fyrir 11500 tunnur + 1500 tunnum til skipa, eða um helming kjötsins, sem selja þarf. Ég vil spyrja þá hv. þm., sem vilja fella samninginn, hvar þeir geti útvegað þann markað, sem komið geti í staðinn, ef þessum markaði er lokað? Vér þurfum hvort sem er að nota til hins ýtrasta innlenda markaðinn. Og vér eigum engar aðrar útgöngudyr fyrir það kjöt, sem afgangs er brezka og danska og innlenda markaðinum.

Vér skulum nú hugsa oss þau kjör, sem miklum þorra ísl. bænda væru boðin næsta haust, ef þessir samningar verða felldir, sem ég þó vona, að komi ekki til. Fjöldi þeirra á þess engan kost að verka kjöt sitt öðruvísi en til söltunar, þ. á. m. heilar sýslur hver við hliðina á annari. Yrðu þeir þá að sæta þeim kjörum, er voru fyrir hendi síðastl. vor, áður en samningaumleitanir tókust. Hver voru kjörin þá? Jú, Norðmenn höfðu þá sett toll á kjötið, er nam rúmlega 57 aur. á kílóið eða um 63 kr. á hverja tunnu. M. ö. o. bændur hefðu fengið rúmlega fyrir smölunarkostnaði og rekstri fjárins í kaupstað, hvað þá fyrir aðalkostnaðinum, fóðrun og hirðingu fjárins. Hvað ætti þá að gera við bændurna í þessum sýslum og mörgum afskekktum héruðum og sveitum landsins? Mér telst svo til, að hér muni eiga hlut að máli nær 1500 fjölskyldur, eða 7—8 þús. manns. Hvert mundi eiga að vísa þessu fólki, þegar bjargræðisvegi þess væri lokið? Getur Rvík boðið nýjum atvinnuleysingjum einhver kostakjör? Getur Hafnarfjörður það? Getur Ísafjörður eða Siglufjörður það? Eða mundi það heillavænlegast úrræði að vísa þessum 7—8 þús. til Seyðisfjarðar, Norðfjarðar eða Eskifjarðar?

Engin stétt hefir sýnt meiri áhuga og kostgæfni á því að lifa á litlu og bjarga sér með því í erfiðleikum kreppunnar en bændastéttin. Og þá eigi hvað sízt í þeim sveitum og héruðum, sem enn eru nær eingöngu upp á salkjötsmarkaðinn komin. Landstjórninni og þeim, sem að samningunum unnu í hennar umboði, fannst það því ekki leikur einn, ef ætti að loka fyrir þessu fólki öllum útgöngudyrum. Landsstj. varð því eftir atvikum að sætta sig við það, þegar loks eftir mikla erfiðleika tókst að fá kjöttollinn lækkaðan um nær 37 aur. á kílóið, eða um 41 kr. á hverja kjöttunnu. Við öfundum ekki bændurna fyrir það. Það er satt. En við fáum þó eygt meiri möguleika til þess að þeir fái haldizt við býlin og alið þar upp hrausta og harðfenga kynslóð, eins og þeir hafa hingað til gert. Einhverjir hafa að vísu gerzt til að bjóða það að borga þennan mismun á tollinum fyrir bændur landsins. Og mundi það nema nær ½ millj. næsta ár, að 1500 tunnum meðtöldum, sem flytja má inn til Noregs, og er endurselt þar til skipanna. Þetta boð er ekki nýtt. Það mun líka hafa verið boðið af einhverjum 1924. En tilboðið er eigi að síður einstaklega fallegt. Þetta glæsilega tilboð er nú samt sem áður ekki nóg til þess, að bændur væru skaðlausir, móts við það að halda þessum samningi, sem hér er um að ræða. Þessir góðgjörnu gjafarar yrði líka að kaupa kjötið sjálft. Því að eins og ég hefi áður bent á, mundi Noregur sama sem lokast fyrir ísl. saltkjöti ef samningarnir falla. Og ef bændur landsins ættu að sleppa án skaða, þá mætti ekki selja kjötið aftur á innlendum markaði, því að þá mundi öllum innanlandsmarkaði fyrir kjöt stórum halla, svo að óviðunandi yrði þeim, sem að honum búa nú aðallega.

Ætla má, að kjötið, sem þessir gjafmildu menn mundu kaupa og hvergi selja á innlendum markaði, mundi að meðtöldum tollmismun nema h. u. b. 1 millj. kr. næsta ár. En svo hefir stundum árað illa í síldarútvegi landsmanna, að ekki aðeins eina millj. heldur meira fé hefir vantað til þess að útvegurinn bæri sig, hvað þá að hann hefði milljónir afgangs.

Það mætti ef til vill segja mér, að einhver varfærinn bóndi vildi sjá þessa göfugu gefendur áður en hann vildi fella samninginn fyrir þessa miklu og góðu gjöf.

Það er skylt að játa, að margir síldarútvegsmenn bera hlýjan hug til landbúnaðarins, svo sem margir aðrir útgerðarmenn og fjöldi þeirra verkamanna og annara, sem hafa alizt upp í sveitum, þótt þeir verði nú að ala aldur sinn við sjó. Meðal þeirra hefi ég líka heyrt raddir, sem telja, að sæmilega hafi tekizt um þessa samninga eins og á stóð. Þeir vita, að þegar náungans veggur brennur, þá er manns eigin vegg hætt. Kaupstaðafólkinu er það enginn hagur, að fólkið í sveitinni flosni upp og þyrpist í bæina, eins og þar er ástatt. Og sveitinni er það heldur ekki nein blessun, að innlendi markaðurinn dragist saman vegna minnkandi kaupgetu kaupstaðanna. Þess vegna er það bæði eðlilegast og bezt, að sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn haldist í hendur og styðji hvor annan. Þetta finnst mér, að hafi gerzt í undirbúningi og málalokum þessara samninga. Ef þeir ná samþ. þingsins, þá eigum vér von til þess, að ísl. bændur þurfi ekki að flosna upp í heilum héruðum, til þess að keppa um vinnu við þá, sem fyrir eru í kaupstöðunum. Og vegna þessa tel ég, að verkafólki og þá einnig því fólki, sem að síldveiðum starfar, sé einnig nokkur greiði ger.